Hreindýraland 700IS hefst 19. mars

Vídeólistahátíðin 700IS Hreindýraland hefst laugardaginn 19. mars, þegar Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, opnar hana kl. 20.00 með formlegum hætti. En þetta er í 6. sinn sem hátíðin er haldin.

Vídeólistahátíðin 700IS Hreindýraland fagnar því að þessu sinni að hafa verið tilnefnd til Eyrarrósarinna, en einnig vel heppnuðu Alternative Routes verkefninu sem hlaut þriggja ára Evrópustyrk og lýkur nú á árinu. Afrakstur þeirrar vinnu og samstarfs verður einmitt til sýnis á hátíðinni auk þess sem listafólkið mun fjalla um verkin sín.
Þemað á hátíðinni í ár er gagnvirk list (interactive art) og verður Sláturhúsið fullt af skemmtilegum verkum þar sem áhorfandinn verður sjálfkrafa þátttakandi í listinni. Til dæmis er í einu verkinu stórt teppi á gólfinu með nemum þar sem áhorfandinn gengur um teppið og stjórnar þannig myndinni á veggnum. Þá verður lítið vélmenni sem eltir áhorfendur, sjónkíkir og margt fleira.

Hluti af verkunum að þessu sinni er afrakstur samstarfs Listaháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík en nafnið á námskeiðinu var "Emerging and Imposing Spaces" - electro mecanical interactive art.
„Vaxandi og uppáþrengjandi rými" - gagnvirk rafvélræn list.
Kennarar námskeiðsins voru Joseph T. Foley og Sigrún Harðardóttir og munu þau vera á hátíðinni, auk þess sem Sigrún Harðardóttir verður með eitt verk til sýnis á efri hæðinni í Sláturhúsinu.

Þá munu gestasýningastjórar frá moves hátíðinni í Bretlandi og Formverk í Svíþjóð sýna úrval alþjóðlegra verka auk þess sem sýnd verða valin verk eftir nemendur Listaháskóla Íslands, sem Sigrún Harðardóttir kennari í Lhí valdi (sjá má lista á vefsíðunni www.700.is - listamenn 2011).

Klukkan 21.00 verður óvænt uppákoma í Bragganum við hliðina á Sláturhúsinu. Mjög spennandi dagskrá er síðan á sunnudeginum á Eiðum.

Mikilvægt er fyrir þá sem vilja sjá öll verkin að koma um opnunarhelgina því sum verkanna eru það flókin tæknilega að Listaháskólinn kemur með eigin græjur og mun taka þær aftur til baka á mánudeginum. Önnur verk verða uppi út vikuna. En sýningin verður tekin niður á fimmtudeginum 24. mars og föstudeginum 25. mars.

Boðið er upp á leiðsögn eins og síðustu ár, og skólar eða vinnustaðir hvattir til að bóka sig þriðjudag og miðvikudag hjá irislinds@gmail.com  

Hér má finna dagskrá Vídeólistahátíðarinnar 700IS Hreindýraland og heimasíða hennar er www.700.is