Hönnunarverkefni á Austurlandi


Hönnuðirnir Julia Lohmann, Gero Grundmann, Max Lamb og Þórunn Árnadóttir dvelja á Austurlandi um þessar mundir og vinna í samstarfi við fyrirtæki og handverksfólk að þróun söluvöru sem tengist svæðinu og eru unnar úr hráefnum sem Austurland hefur upp á að bjóða. Lokaútkoman er vörulína sem endurspeglar austfirska menningu, samfélag eða sjónasögu hvað varðar efnisnotkun, aðferðir eða verkþekkingu. Vörurnar verða sýndar á sölusýningu í Spark Design Space á HönnunarMars 2014, því næst á farandsýningu um Austurland um sumarið og ferðast svo til London á hönnunarhátíð um haustið. Samhliða hönnunarvinnunni er gerð heimildarmynd um verkefnið, vinnuna og upplifun hönnuðanna á Austurlandi.

Verkefnið sem nefnist Austurland: Designs from Nowhere er unnið í anda hugmyndafræði MAKE by Þorpið og á rætur sínar að rekja til ráðstefnunnar Make It Happen - Skapandi hugsun á Austurlandi sem var haldin víðsvegar um Austurland í fyrrahaust. Verkefninu er stýrt af Körnu Sigurðardóttur, hönnuði og kvikmyndaleikstjóra, og Pete Collard, hönnunargagnrýnanda og sýningarstjóra, frá London. Verkefnið er styrkt af Menningarráði Austurlands, sveitarfélögunum Djúpavogi, Fljótsdalshéraði og Fjarðabyggð, Egersund og Eskju á Eskifirði og Bókakaffi Hlöðum í Fellabæ.

Í fréttatilkynningu eru þátttakendur kynntir á eftirfarandi hátt:
Julia Lohmann og eiginmaður hennar Gero Grundmann vinna ásamt Markúsi Nolte, húsgagnasmið í Þorpssmiðjunni á Egilsstöðum. Julia hefur nýlega lokið sex mánaða rannsóknarverkefni hjá hinu virta Victoria og Albert safni í London þar sem hún þróaði aðferðir til að nýta sjávarþara sem efnivið í hönnun nytjavöru. Í samstarfi við Markús vinna Julia og Gero hörðum höndum þessa dagana að því að nýta íslenskan þara í hönnun sína. Julia, Gero og Markús eru öll af þýskum uppruna en Julia og Gero hafa margsinnis sótt Ísland heim og Markús er búsettur á Fljótsdalshéraði.
 
Á Djúpavogi starfar Max Lamb í samstarfi við Vilmund Þorgrímsson, viskubrunn og þúsundþjalasmið. Max er virtur húsgagna- og vöruhönnuður frá London og í fyrrahaust hélt hann fyrirlestur um verk sín á Seyðisfirði á ráðstefnunni Make It Happen. Max er sjálfur handverksmaður og hefur unnið að hönnunarverkefnum víða um heim. Í Hvarfi á Djúpavogi geta gestir og gangandi barið verk Vilmundar og náttúrugripasafn augum jafnframt því að njóta fróðleiks hans en enginn kemur að tómum kofanum hjá Vilmundi.
 
Þórunn Árnadóttir er vöruhönnuður frá Reykjavík sem nýlega flutti til Íslands eftir hönnunarnám við Konunglega listaháskólann í London. Þórunn hannar sína vöru í samstarfi við netaverkstæðið Egersund á Eskifirði og undir dyggri leiðsögn Þórhalls Þorvaldssonar sem er starfsmaður Egersund og kennir sjóvinnu í grunnskólanum á Eskifirði. Auk þess mun hún vinna með hreindýrabein og -horn í samvinnu við Þórhall Árnason í Þorpssmiðjunni á Egilsstöðum. Þórhallur Árnason er húsasmiður og handverksmaður og framleiðir ýmsar nytjavörur úr hreindýraafurðum og íslenskum trjávið.
 


Á myndinni má sjá Juliu Lohmann, Gero Grundmann og Markus Nolte vinna  í Þorpssmiðjunni á Egilsstöðum.