Hlutfall réttindakennara á Fljótsdalshéraði með því hæsta

Nokkur umræða hefur að undanförnu verið í fjölmiðlun um menntun starfsfólks við kennslu í grunnskólum landsins. Í fréttum ríkisútvarpsins 2. mars kom fram að hlutfall réttindakennara í grunnskólum á Austurlandi væri um 66%. Á Fljótsdalshéraði eru réttindakennarar rúm 90%.

Í fréttum kom einnig fram að þetta hlutflall væri hvergi á landinu lægra nema á Vestfjörðum samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Samkvæmt fréttinni er hlutfall réttindakennara langhæst á höfuðborgarsvæðinu eða um 90,9%. 

Í þessu samhengi er full ástæða til að benda sérstaklega á stöðu mála á Fljótsdalshéraði, en í sveitarfélaginu er hlutfall réttindakennara nánast hið sama og á höfuðborgarsvæðinu, eða 90,25% og er því með því hæsta sem gerist á landinu.

Hlutfall réttindakennara er  lítið eitt breytilegt í þeim fjóru grunnskólum sem starfræktir eru í sveitarfélaginu. Hæst er hlutfall réttindakennara í Fellaskóla, en þar eru einungis réttindakennarar við störf og hlutfall réttindakennara því 100%.  Í Grunnskólanum Egilsstöðum og Eiðum, þar sem eru rúmlega 360 nemendur, eru 93,5% stöðugilda við kennslu í höndum réttindakennara.

Í stefnu sveitarfélagsins er mikil áhersla á mikilvægi árangursríks og metnaðarfulls starfs í öllum skólum sveitarfélagsins og forsenda þess er að hafa hæft, vel menntað og áhugasamt fólk við störf í skólunum. Í þeim er unnið afar gott starf og má ekki síst þakka það vel menntuðu, áhugasömu og metnaðarfullu starfsfólki og stjórnendum.

Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á menntastefnu Fljótsdalshéraðs þar sem mörkuð er stefna í málaflokknum til lengri tíma á áræðinn og framsýnan hátt. Stefnan verður kynnt íbúum sveitarfélagsins þegar vinnunni við hana er að fullu lokið og eru íbúar hvattir til að kynna sér hana og taka virkan þátt í að tryggja henni framgang til framtíðar.