Hjördís Hilmarsdóttir handhafi Þorrans 2020

Myndin er tekin af Facebooksíðu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs.
Myndin er tekin af Facebooksíðu Ferðafélags Fljótsdalshéraðs.

 Sú hefð hefur skapast síðustu ár að á þorrablóti Egilsstaða sem haldið er á bóndadag er afhentur farandgripurinn Þorrinn sem Hlynur á Miðhúsum hefur skorið út. Í ár var það Hjördís Hilmarsdóttir, sleðahundaræktandi og Ferðafélagsdrottning, sem var heiðruð á þann hátt. 

Ávarpið sem Gunnar Jónsson flutti við það tækifæri fylgir hér á eftir.

„Árlega síðan 1998 hefur þorrablótsnefnd valið einstakling eða einstaklinga sem hafa unnið að góðum verkum fyrir þetta samfélag. Að þessu sinni hlýtur þorrann kona sem kannski hefur ekki verið mjög áberandi í samfélaginu en hefur engu að síður unnið afar markveða vinnu í þágu þess sem margir njóta góðs af.

Þorrann í ár hlýtur Hjördís Hilmarsdóttir. Hjördís er vel að þessum heiðursverðlaunum komin, hún hefur haft verkefnin Perlur Fljótsdalshéraðs og Heiðarbýlin á sínum snærum. Perluverkefnið hefur haft mikil áhrif á nærsamfélagið þar sem fjölskyldur og vinir ganga saman um náttúruperlur svæðisins og safna perlum. Fullyrða má að þetta hefur náð ótrúlegasta fólki upp úr sófanum. Ekki er nóg með að þetta sé heilsusamlegt heldur er þetta góð samvera og fólk fær tækifæri til að sjá náttúruperlur sem það hefði annars ekki séð.

Sumrin 2017 og 2018 vann Hjördís að gerð kynningarmyndarinnar Heiðarbýlin í nærmynd og fjallar hún um heiðarbýlin á Jökuldals- og Vopnafjarðarheiði. Uppbyggingarsjóður Austurlands styrkti gerð myndarinnar og var hún unnin í nafni Ferðafélags Fljótsdalshéraðs.

Hjördís hefur staðið fyrir sunnudagsgöngum með Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs þar sem fólk hittist og gengur saman og er það ómetanlegur félagsskapur fyrir marga.

Við þetta má bæta að hún hefur verið dugleg með sleðahundana sína og var hún um tíma í samstarfi við Rauða krossinn að heimsækja bæði eldri borgara á Dyngju og íbúa sambýlisins í Bláargerði með hundana. Hjördís hefur boðið upp á sleðaferðir fyrir gesti og gangandi til dæmis um páska á skíðasvæðinu í Stafdal og á fleiri stöðum.

Af þessu öllu má sjá að Hjördís hefur haft jákvæð áhrif á nærsamfélagsitt að ógleymdu því að fólk allstaðar að úr heiminum nýtur góðs af Perlunum hennar og Heiðarbýlum þar sem þessar gönguleiðir eru orðnar hluti af afþreyingu á svæðinu."

Hjartanlega til hamingju Hjördís!