- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Á vorin getum við treyst á tvennt: lóan kemur til að kveða burt snjóinn og Hjólað í vinnuna vekur upp keppnisandann og -gleðina. Í ár, líkt og áður, stendur Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands fyrir heilsu- og hvatningarverkefninu Hjólað í vinnuna. Verkefnið hefur staðið yfir frá árinu 2003 og á síðasta ári voru tæplega 400 vinnustaðir skráðir til leiks. Í ár fer Hjólað í vinnuna fram frá 8. til 28. maí, en hægt er að skrá sig fram á síðasta dag.
Við vitum að aukin hreyfing bætir, hressir og kætir og til að toppa‘ða þá hefur hún líka góð áhrif á umhverfið ef við skiptum út bílferðunum. Því er um að gera fyrir bæjarbúa alla að taka þátt.
Meginmarkmið ,,Hjólað í vinnuna” er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Allir sem nýta eigin orku til að ferðast til og frá vinnu eru gjaldgengir þátttakendur þ.e. hjóla, ganga, hlaupa, nota línuskaut/hjólabretti o.s.frv. Þeir sem nota almenningssamgöngur geta einnig tekið þátt en þá er skráð sú vegalengd sem gengin/hjóluð er til og frá stoppistöð. Skráningar eru fyrir löngu hafnar, en hægt er að skrá sig og sitt lið til leiks fram að lokadegi, 28. maí.
Hægt er að fá allar upplýsingar um verkefnið á vefsíðu verkefnisins, www.hjoladivinnuna.is.