Hjólað í vinnuna 2011: Lið bæjarskrifstofanna sigraði

Í byrjun júlí veitti Fljótsdalshérað viðurkenningar fyrir góðan árangur vinnustaða í sveitarfélaginu í Hjólað í vinnuna, en sú keppni fór fram frá 4. til 24. maí í vor. Er þetta í fjórða skiptið sem bestu liðin á Fljótsdalshéraði eru verðlaunuð með þessum hætti.

Úrslitin í ár voru eftirfarandi: Í þriðja sæti varð lið UÍA. Í öðru sæti urðu sigurvegarar undanfarinna ára, lið KPMG og SKRA, en í fyrsta sæti varð lið Bæjarskrifstofa Fljótsdalshéraðs. Alls tóku átján fyrirtæki og stofnanir á Fljótsdalshéraði þátt í keppninni og hjóluðu þátttakendur alls um 3.700 km sem jafngildir tæplega þremur hringjum í kringum landið og tók það keppendur rúmlega 1000 daga að ná þeim árangri.

Samanlagður árangur liða á Fljótsdalshéraði í ár var rúmlega tvöfalt betri en árangur þeirra liða sem voru með í fyrra. Keppnin um fyrsta sætið var mjög jöfn og spennandi framan af en þegar yfir lauk höfðu bæjarskrifstofurnar nokkuð öruggt forskot. Spennan var hins vegar öllu meiri í keppninni um þriðja sætið en sjö lið höfðu möguleika á að hreppa það fram á síðustu viku keppninnar.