Hið fullkomna deit

Núna um helgina verður leikritið Power of love (Hið fullkomna deit) sýnt í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Leikritið er eftir Halldóru Malin Pétursdóttur, sem jafnframt er eini leikarinn. Tónlistin er samin, útsett og flutt af Páli Ivani Pálssyni og Kristínu Þóru Haraldsdóttur.

Power of Love, hið fullkomna deit, fjallar um konu sem er að undirbúa mikilvægasta kvöld lífs síns. Þetta kvöld ætlar hún að finna ástina og lifa hamingjusöm til æviloka.
Til þess að ekkert fari úrskeiðis skipuleggur hún allt út í þaula. Allt verður að vera fullkomið þegar herrann mætir á svæðið. Hún verður að vera fullkomin. Power of Love hefur verið sýnt í Austurbæ í Reykjavík og er nú komið til Egilsstaða eftir að hafa verið á leikferðalagi á leiklistarhátíðum í Slóveníu og Króatíu.

Sýnt verður í Sláturhúsinu á Egilsstöðum laugardaginn 28 apríl kl 20:00 og sunnudaginn  29 apríl kl 20:00. Aðeins verða sýndar þessar tvær sýningar.

Miðasala er í síma 866-6201.
Miðaverð er kr. 1500


Halldóra Malin Pétursdóttir útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands vorið 2006 með B.F.A. í leiklist. Síðan þá hefur hún m. a. sett upp einleik á Borgafyrði Eystra, stofnað leikfélagið Frú Normu á Egilsstöðum sem er eitt af tveimur atvinnuleikhúsum á landsbyggðinni, utan Akureyrar, auk þess sem hún vann til tvennra verðlauna í dansleikhússamkeppni Borgarleikhússins vorið 2006, fyrir verkið Tommi og Jenni. Nýverið stofnaði Halldóra Malin leikhópinn Brilljantín og er Power of Love fyrsta verkefni þess leikhóps. Verkið hlaut styrk frá leiklistarsjóði menntamálaráðuneytisins sem og úr sjóði listamannalauna.