- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Föstudagurinn 21. ágúst býður m.a. upp á Héraðsvöku, útgáfutónleika og bændahátíð. Eins og undanfarna daga býður Óbyggðasafn Íslands upp á reiðtúra inn að Ófæruseli klukkan 10.00 og 17.00. Þar gefur að líta einstaka fossa og fjölbreytta náttúru. Í ferðinni er einnig litið inn í gamla húsið á Kleif og fólki gefst kostur á að renna sér yfir á kláfferju yfir Jökulsá í Fljótsdal. Þetta er um það bil þriggja tíma ferð. Í Óbyggðasetrinu verður boðið upp á hádegis- og kvöldmat sem og kaffiveitingar um miðjan daginn. Tekið er á móti bókunum í síma 440 8822 og á netfangið info@wilderness.is
Klukkan 13.00 er fyrsta æfing þátttakenda í söngvarakeppninni sem fram fer síðan á laugardaginn. Æfingin fer fram í stúdíóinu í Sláturhúsinu.
Héraðsmarkaðurinn heldur áfram við Nettó planið og er hann opinn milli kl. 14.00 og 18.00.
Miðasala á hreindýraveisluna á laugardaginn fer fram í markaðstjaldinu og er verð á hana það sama og í fyrra eða kr. 4.990.
Frá klukkan 16.00 er boðið upp á Bændahátíð Landstólpa á svæði gamla tjaldsvæðisins á Egilsstöðum. Landstólpi verður með sérfræðing á svæðinu og hægt er að fá sér kaffi og með því.
Héraðsvaka hefst í Valaskjálf kl. 20.00. Létt og skemmtileg dagskrá með tónlistaratriðum. Stefán Bogi og Þorsteinn Bergsson stjórna hagyrðingarkvöldi, Jóhannes Kristjánsson eftirherma skemmtir og sitthvað fleira.
Klukkan 21.00 hefjast tónleikar Laser Life, sem er raftónlistarmaðurinn Breki Steinn Mánason frá Egilsstöðum, vegna útgáfu plötunnar Polyhedron. Breki Steinn flytur tónlist af plötu sinni.
Øystein Magnús Gjerde sér um upphitun. Hann mun flytja frumsamið efni og ábreiður á stálstrengjagítar.
Hægt verður að forpanta eintak af plötu Breka á staðnum.
Tónleikarnir eru í boði MMF og er frítt inn á þá.