Helga og Magnús hlutu Þorrann

Á þorrablóti Egilsstaða, sem haldið var föstudaginn 21. janúar, var Þorrinn afhentur í sautjánda sinn. En hann er veittur þeim sem skilað hafa mikilsverðu framlagi til samfélagsins á sviði félagsmála, menningar, lista, afþreyingar eða atvinnu. Að þessu sinni var hann afhentur hjónum „sem í áratugi hafa á lagt sig fram um að efla starf innan Héraðs á sviði íþrótta og menningar og eru þeir ófáir sem hafa notið handleiðslu þeirra í leik og starfi í gegnum tíðina", eins og Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs, sagði þegar hann tilkynnti um viðurkenninguna á þorrablótinu. Hér er um að ræða þau Helgu Ruth Alfreðsdóttur og Magnús Magnússon.

Í ávarpi Stefáns Boga kom eftirfarandi fram um þau Helgu og Magnús: „Helga og Magnús kynntust í Þýskalandi þar sem Helga er fædd og uppalinn en Magnús stundaði þar tónlistarnám. Þau fluttu saman til Íslands árið 1965 og settust síðan að hér á Egilsstöðum árið 1971 en hér hafa þau átt sitt heimili síðan.

Helga kenndi íþróttir og sund við Grunnskólann á Egilsstöðum í hátt í 40 ár en hún er ekki síður af góðu kunn vegna einstaks starfs hennar í þágu frjálsíþróttaþjálfunar á vegum Íþróttafélagsins Hattar og UÍA en lið undir hennar stjórn unnu marga titla í mótum á fjórðungs- sem og landsvísu. Þá þjálfaði Helga einnig afreksíþróttamenn í flokki fullorðinna, íslandsmeistara, íslandsmethafa og ólympíufara. Fyrir starf sitt hefur Helga hlotið ýmsar viðurkenningar m.a. frá UÍA, Frjálsíþróttasambandi Íslands og Alþjóða frjálsíþróttasambandinu. Helga hefur hefur að auki látið til sín taka á öðrum sviðum, t.d. í handverki og nýverið hefur hún, í sjálfboðavinnu, tekið að sér að kenna eldri borgurum sund.

Magnús helgaði starfsævi sína tónlistarkennslu, en hann var skólastjóri Tónskólans hér allt frá stofnun hans árið 1971 og í á fjórða áratug. Auk þess að kenna einstaklingum var hann forvígismaður og stjórnandi ýmissa stærri og smærri hljómsveita og sönghópa. Hann var t.a.m. stjórnandi lúðrasveitar Tónskólans sem og stjórnandi Tónkórsins sem starfræktur var um árabil á vegum Tónlistarfélags Fljótsdalshéraðs. Þá hefur Magnús í gegnum árin haft forgöngu um og tekið þátt í uppsetningu ýmissa metnaðarfullra tónlistarviðburða hér á Héraði, auk þess að hafa einnig þjónað sem organisti í ýmsum kirkjum á Héraði um lengri eða skemmri tíma."

Þorrinn sjálfur er handunnið listaverk eftir Hlyn Halldórsson frá Miðhúsum og sá sem hann hlýtur hverju sinni fær nafn sitt ritað á plötu á verkinu og hefur gripinn í sinni vörslu til næsta þorrablóts.