Heimildamyndaveisla í Sláturhúsinu

Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs sýnir 3 myndir sem tilnefndar voru í flokki heimildamynda á Eddunni í ár.

Dagskráin hefst í kvöld 28. mars þegar sýnd verður myndin Svona Fólk (1970-1985). Sú mynd fjallar um réttindabaráttu samkynhneigðra. Örlagaríkt viðtal í tímaritinu Samúel 1975 við Hörð Torfason um kynhneigð hans hratt af stað ófyrirsjáanlegri atburðarás og markar upphaf réttindabaráttu homma og lesbía á Íslandi. Svona fólk - fyrri hluti rekur aðstæður og upphaf þessarar baráttu fram til 1985, sögur fólks sem daglega tókst á við ríkjandi gildismat og fordóma í von um að gera Ísland byggilegt fyrir sig og sína.

Næsta mynd á dagskránni er UseLess. Tvær af grunnþörfum mannsins, matur og klæði, eru farnar að hafa í för með sér gífurlega slæm umhverfisáhrif. Heimildamyndin Usless fjallar um matar- og tískusóun og er áhorfendum gerð grein fyrir því hve mikið af auðlindum fer til spillis þegar vara endar í ruslinu eftir langt framleiðsluferli og ferðalag til neytandans. Sú mynd verður sýnd næsta fimmtudag, þann 4. apríl.

Þriðja myndin verður sýnd þann 11. apríl en það er heimildamyndin Litla Moskva sem fjallar um heilt bæjarfélag og hvernig það hefur breyst í tímans rás, frá því að sósíalistar réðu ríkjum í bænum og til dagsins í dag. Í myndinni er fjallað um stöðu íslensks sjávarþorps á tímamótum þar sem einangrun og samstaða samfélags er tekin til skoðunar með hliðsjón af sérstökum pólítískum aðstæðum.

Sýningarnar hefjast allar klukkan 19:30 í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Aðgangur ókeypis.


28. mars - Svona Fólk (1970-1985):
https://www.facebook.com/events/2842197116065342/

4. apríl - UseLess:
https://www.facebook.com/events/579586869228381/

11. apríl – Litla Moskva:
https://www.facebook.com/events/404282860394402/