Heimastjórnir vekja athygli

Verði tillaga um sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar samþykkt er ráðgert að setja upp nýtt stjórnskipulag með stoð í tilraunaákvæði í sveitarstjórnarlögunum. Það ákvæði veitir heimild til að gera breytingar á stjórnskipulagi sveitarfélags með heimild sveitarstjórnarráðuneytisins. Tilraunin skal ekki gerð til skemmri tíma en átta ára. Stjórnskipulagshugmyndin byggir á einfaldri og skilvirkri stjórnsýslu, ásamt valddreifingu til heimastjórna sem fara með tiltekin nærþjónustuverkefni, t.d. afgreiðslu deiliskipulags.

Markmiðið með heimastjórnum er að tryggja áhrif íbúa á nærsamfélag sitt og bregðast við þeirri gagnrýni að jaðarbyggðir missi áhrif í sameinuðum sveitarfélögum. Heimastjórnarhugmyndin hefur vakið mikla athygli og hafa fjölmiðlar fjallað um hana undanfarið, m.a. morgunútvarpið á Rás 1 (Umfjöllun byrjar á 1:21:20) og Kjarninn

Heimastjórnir verða fjórar og munu þrír fulltrúar sitja í hverri heimastjórn. Það hefur vakið mikla athygli og umræðu að tveir fulltrúanna verða kosnir beinni kosningu af íbúum á hverjum stað. Þriðji fulltrúinn á sæti í bæjarstjórn, en fulltrúarnir eru jafn réttháir og atkvæðisvægi hið sama. Með þessu móti verður sterk tenging á milli bæjarstjórnar og heimastjórna.
Nánari umfjöllun um stjórnskipulag sameinaðs sveitarfélags má finna í skýrslu Samstarfsnefndar.

Nánar um sameiningu sveitarfélaganna má finna hér https://svausturland.is