- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Hvað er Heilsueflandi samfélag?
Í mars 2017 skrifuðu þrjú sveitarfélög á Austurlandi; Fljótsdalshérað, Fjarðabyggð og Seyðisfjarðarkaupstaður, undir samstarfssamning við Embætti landlæknis um að gerast Heilsueflandi samfélög. Nokkuð var gert úr undirrituninni á hverjum stað og vonandi hafa íbúar sveitarfélaganna rekist á merki verkefnisins hér og þar, til dæmis á heimasíðum sveitarfélaganna. Í kjölfar undirskriftarinnar voru stofnaðir stýrihópar í hverju sveitarfélagi sem hafa það hlutverk að tryggja innleiðingu verkefnisins sem og að vera ráðgefandi og hafa eftirlit með stefnumótum sveitarfélaganna.
Heilsueflandi samfélag er samfélag sem leggur áherslu á að heilsa og líðan allra íbúa sé höfð í fyrirrúmi í allri stefnumótun og ákvarðanatöku. Í slíku samfélagi er jafnframt lögð áhersla á að bæta félagslegt og manngert umhverfi íbúa og draga úr ójöfnuði. Einnig er áherslan á margskonar forvarnar- og heilsueflingarstarf til þess að draga úr tíðni og afleiðingum langvinnra sjúkdóma. Heilsa er meira en það að vera laus við sjúkdóma og örorku heldur snýst hún um líkamlega, andlega og félagslega vellíðan.
Hlutverk stjórnvalda getur á svo ótal vegu haft áhrif á heilsuhegðun íbúa. Sem dæmi má nefna aðgengi að samgöngum, byggingum og þjónustu, uppbyggingu heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og skólasamfélagsins, aðbúnað eldri borgara, næringu, uppbygging grænna svæði, gæði forvarna, fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf, virkt foreldrasamstarf og ótal margt fleira. Listinn er ótæmandi.
Af hverju tökum við þátt?
Þátttaka í verkefninu Heilsueflandi samfélag er hugsuð sem hvatning til allra, jafnt íbúa, þjónustuaðila sem og stjórnsýslunnar, til að huga að heilsu fólks og líðan. Heilsueflandi samfélag snýr að því að gera íbúum kleift að velja sér sína leið til heilsueflingar, hvort sem er líkamlegrar- eða andlegrar-. Hvort sem það er að velja frekar að hjóla en aka í vinnuna, hafa gott aðgengi að hvers kyns tómstundastarfi eða að í boði sé staðgóður hádegisverður í skólum og á vinnustöðum. Verkefnið er hvatning, til dæmis til þeirra sem skipuleggja gatnamál til að huga að því að þægilegt sé fyrir alla, óháð líkamlegu atgervi eða vali á fararskjóta, að fara um götur og stíga.
Heilsueflandi samfélag verður svo vonandi til þess að val íbúa verður auðveldara þegar kemur að því að velja á milli heilsusamlegri eða óheilsusamlegri kosta. Að vera Heilsueflandi samfélag þýðir ekki að allt fullkomið, heldur er það yfirlýsing um að stefnt sé að því að gera betur!
Hvað svo?
Næstu skref sveitarfélaganna þriggja er áframhaldandi vinna við þarfagreiningu hvers samfélags. Hvar standa þau sterk? Hvar kreppir skóinn? Hvað er vel gert? Hvað þarf að gera betur? Hvað er heilsulæsi? Hvað er heilsumeðvitund?
Á meðal þess sem fyrirhugað er að gera er að hvetja alla skóla, leik-, grunn- og menntaskóla, á Austurlandi til að gerast Heilsueflandi. Áfram verður fylgst með því að boðið sé upp á fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf. Að sjálfsögðu verður áframhaldandi þátttaka í árlegum hreyfiverkefnum á borð við Move Week, Hjólað í vinnuna og Lífshlaupið. Ekki síst á að huga að áframhaldandi samstarfi sveitarfélaganna þriggja um Heilsueflandi Austurland. Með því að sameina krafta þeirra í stefnumótun og verkefnum, lærast hlutirnir hraðar og við það sparast bæði tíma og peninga. Einnig mun samstarfið ýta sveitarfélögunum í átt að markvissari árangri á sviði lýðheilsu.
Tilgangurinn er að vekja allt samfélagið til meðvitundar um hvernig stuðla megi að betri heilsu, vellíðan og lífsgæðum íbúa, burt séð frá aldri, stöðu, kyni eða öðru. Það er svo hvers samfélags fyrir sig að leggja drög að því hvað skiptir mestu máli, hvert stefna skuli og hvernig eigi ná þeim markmiðum sem sett eru.
Að endingu viljum við, fyrir hönd sveitarfélaganna, gjarnan biðja ykkur íbúa að hjálpa okkar á þessari vegferð, til dæmis með því að vera dugleg að benda okkur á hvað getur betur farið, hvað er gott og svo að sjálfsögðu með því að huga að ykkar eigin heilsueflingu, í sinni víðtækustu mynd!
Bjarki Ármann Oddsson, verkefnastjóri Fjarðabyggðar
Bylgja Borgþórsdóttir, verkefnastjóri Fljótsdalshéraðs
Eva Björk Jónudóttir, verkefnastjóri Seyðisfjarðarkaupstaðs