Heilsuátak í Íþróttamiðstöðinni

Heilsuátak hefur verið sett á stað í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum. Átakið hófst þann 20. febrúar og kemur því til með að ljúka þann 30. apríl næstkomandi. Átakinu er ætlað að hvetja fólk til heilbrigðra lífshátta þar sem það nýtir um leið íþróttamannvirkin enn betur.

Til þess að taka þátt í átakinu þarf viðkomandi að vera fæddur eigi síðar en 1992. Æfingarnar þurfa að fara fram í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum eða Íþróttahúsinu í Fellbæ. Þá er einnig hægt að ganga eða hlaupa úti. Allar æfingar þurfa að vera að lágmarki 60 mínútur að meðtöldum tíma í sturtu. Þátttakendur bera ábyrgð á sinni skráningu en viðkomandi verður að skrá sig hjá húsverði í afgreiðslu áður en æfing hefst og svo aftur þegar henni líkur.
Til enn frekari hvatningar hefur verið sett af stað keppni í tveimur flokkum mætinga, þ.e þeir sem mæta 3 sinnum í viku og svo þeir sem mæta 5 sinnum í viku. Þátttakendur verða að ákveða fyrirfram í hvorn flokkin þeir vilja skrá sig. Skráningarvikan er föstudagur til fimmtudags og getur fólk hafið átakið hvernær sem er til þess að taka þátt. Á tveggja vikna fresti verða nöfn þátttakenda dregin út og hvatningaverðlaun veitt í hvorum flokki fyrir sig. Í lok átaksins verða veittar sérstakar viðurkenningar fyrir mætingar.
Þá verður þátttakendum gefið tækifæri til þess að taka þátt í þyngdartapskeppni. Viðkomandi vigtar sig í upphafi og setur sér síðan markmið, í lok verður svo aftur vigtun. Þeir sem standast áætlun eða komast sem næst sínum markmiðum fara í einn pott þar sem dregin verða út sérstök verðlaun.
Það er von starfsmanna íþróttahúsana að sem flestir verði með og nýt sér næstu vikur sem best.