HEF: Framkvæmdir beggja vegna Fljóts

2015 verður enn eitt framkvæmdasumarið hjá Hitaveitu Egilsstaða og Fella. Lögð verður ný hitaveitulögn yfir Egilsstaðanes, hitaveitulögn að Tjarnabraut verður kláruð og lagður göngustígur undir Gálgakletti. Ylur ehf. var með lægstu tilboð í verkin og hefjast framkvæmdir innan skamms.

Framkvæmdasvæðin eru tvö. Fyrst ber að nefna stofnlögn yfir Egilsstaðanes. Lögn verður grafin í vegöxl vestari kants vegar, Þjóðvegur 1 um Egilsstaðanes verður því þveraður tvívegis í verkinu. Vegur verður þveraður við Ferjulag annarsvegar og við innkeyrslu á tún Egilsstaðabænda neðan við Menntaskólabrekku. Gerðar verða hjáleiðir sem umferð verður beint um á meðan vegur verður lokaður, en vonast er til að hvor þverun gangi að sjálfsögðu sem hraðast fyrir sig. Samhliða hitaveitulögn verður lögð ný stofnlögn vatnsveitu fyrir Fellabæ. HEF biður þá sem aka um Egilsstaðanes að sýna verktökum sem þar vinna tillitsemi meðan verki stendur.

Þá eru hafnar framkvæmdir í Fellabæ. Endurnýjaður verður stofn hitaveitu og vatnsveitu í Lagarfelli og lögð verður regnvatnslögn í götu. Austurverk ehf. sér um það verk og að því loknu verður lögð ný klæðning á hluta Lagarfells. Gera má ráð fyrir að Lagarfell lokist því tímabundið frá gatnamótum við innkeyrslu Olís og upp að Lagarfelli 10.