Haraldur nældi sér í Íslandsmeistaratitil

Mynd: archery.is
Mynd: archery.is

Haraldur Gústafsson úr SkAust varð nýverið Íslandsmeistari í bogfimi með sveigboga. Þetta er fyrsti titill Haraldar utanhúss í opnum flokki en hann hefur verið í fremstu röð bogfimimanna hér á landi undanfarin ár. Guðný Gréta Eyþórsdóttir vann einnig til verðlauna á mótinu.

Íslandsmeistaramótið fór fram á Víðistaðatúni í Hafnarfirði dagana 18.og 19.júlí og var láni keppenda misskipt hvað varðar veðrið. Á laugardag var keppt með berboga og trissuboga og þá var hávaðarok á keppnisstað og gul viðvörun sem gerði bogfimifólkinu erfitt fyrir. Á sunnudag viðraði vel til keppni en þá var keppt með sveigboga. Haraldur tryggði sér sigurinn með glæsibrag, lagði Íslandsmeistarann innanhúss í úrslitaviðureigninni og hafði áður lagt fráfarandi Íslandsmeistara utanhúss í undanúrslitum.

Auk Haraldar keppti Guðný Gréta Eyþórsdóttir einnig fyrir hönd SkAust á mótinu. Hún hreppti bronsverðlaun í kvennaflokki með berboga og saman hrepptu hún og Haraldur einnig bronsið í tvíliðaleik með sveigboga.

Nánar um þetta má sjá á Austurfrétt og á vef Bogfimisambandsins