Hallormsstaðaskóli sigraði Austurlandsriðil Skólahreystis, í Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum 19. mars og keppir til úrslita í Reykjavík þann 30. apríl. Alls tóku tólf skólar frá Austurlandi þátt í keppninni.
Í liði Hallormsstaðaskóla eru þau Arnór Jón Hlynsson 10. bekk, Elísa Hallfreðsdóttir 10. bekk, Laufey Ósk Þórólfsdóttir 9. bekk og Sigurður Árni Sigurbjörnsson 10. bekk.
Í keppninni í mars fékk Hallormsstaðaskóli 52,5 stig, Vopnafjarðarskóli náði öðru sæti með 47.5 stig og í þriðja sæti varð Grunnskóli Hornafjarðar. Þjálfari liðsins, Þórólfur Sigjónsson, kemur úr foreldrahópnum og hefur hádegishléið verið aðal æfingatíminn.
Lið skólans er því á leið í úrslitakeppnina sem fer fram í Laugardagshöllinni þann 30. apríl og trúlega stífar æfingar framundan.