Hallormsstaðaskóli býður upp á heilsársnám í sjálfbærni og sköpun

Hallormsstaðaskóli á Fljótsdalshéraði býður upp á heilsársnám á sjálfbærni og sköpunarbraut og leggur áherslu á siðfræði náttúrunytja og ábyrga neyslu. Sjálfbærar lausnir eru hagkvæmar lausnir sem skapa ávinning fyrir umhverfi og samfélag.

 Námið er þverfaglegt og getur nýst öllum þeim sem vilja vinna með hráefni til neyslu á sjálfbæran og ábyrgan hátt, þeim sem vilja hafa áhrif á einstaklinga og nærumhverfi og þeim sem vilja taka áskorun um stærri hnattræn verkefni.

 Námið byggir á sterkum grunni. Í 90 ár hefur kennsla við skólann einkennst af verkkunnáttu á sviði matarfræði og textíls, nýtingarmöguleikum hráefna og sjálfbærni. Opið er fyrir umsóknir fyrir næsta skólaár. Nánari upplýsingar og umsóknareyðublöð má finna á vef skólans. https://www.hskolinn.is

Þá má nefna að skólinn leitar að skapandi einstaklingum með brennandi áhuga á sjálfbærni til að stýra námi í textílfræðum og matarfræði á Sjálfbærni og sköpunarbraut skólans.  Umsóknarfrestur rennur út 22. júli.

 Hallormsstaðaskóli er í hjarta Hallormsstaðaskógar með útsýni yfir Lagarfljótið. Skólinn er 27 km frá Egilsstöðum þar sem hægt er að sækja alla þjónustu.