Haldið upp á 200. fund bæjarráðs

Miðvikudaginn 22. febrúar sl. var haldinn tvöhundruðasti fundur bæjarráðs Fljótsdalshéraðs. Sveitarfélagið Fljótsdalshérað varð formlega til við sameiningu Norður-Héraðs, Fellahrepps og Austur-Héraðs þann 1. nóvember 2004. Bæjarráð hefur því haldið að meðaltali um 2,3 fundi á mánuði á starfstíma sínum, en að öllu jöfnu fundar bæjarráð 2. og 4. miðvikudag hvers mánaðar.

Í tilefni dagsins mætti Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs, með gómsæta afmælistertu á fundinn og voru henni gerð góð skil af fundarmönnum.

Á myndinni sést bæjarráðsmaðurinn Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar, „taka fyrstu skóflustunguna".