Hagræðing í rekstri sveitarfélagsins

Á fundi bæjarráðs Fljótsdalshéraðs þann 25. mars síðastliðinn voru samþykktar bókanir vegna hagræðingar í rekstri sveitarfélagsins en fyrir liggur vísbending um að tekjur lækki um 87 milljónir miðað við samþykkta fjárhagsáætlun fyrir árið 2009.


Fjármálastjóri sveitarfélagsins hefur undanfarið fundað með deildastjórum og forstöðumönnum flestra stofnana sveitarfélagsins með það að markmiði að leita leiða til hagræðingar í rekstri. Á síðasta fundi bæjarráðs var samþykkt tillaga um hagræðingaaðgerðir á eftirfarandi málaflokkum: Félagsþjónustuan lækki kostnað um 5.000.000 kr. Í heilbrigðismálum verði hagrætt um kr. 600.000 og í fræðslumálum um kr. 10.500.000. Þá verði kostnaður vegna menningamála lækkaður um kr. 1.400.000, í æskulýðs – og íþróttamálum um kr. 6.200.000 en aukið verði við fjármagni til bruna – og almannavarna um kr. 3.100.000. Kostnaður við hreinlætismál verði lækkaður um kr. 1.000.000, skipulags – og byggingamál lækki kostnað sinn um kr. 1.000.000, kostnaður vegna samgöngumála lækki um kr. 14.500.000, umhverfismálin lækki um kr. 4.561.000 og atvinnumálin um kr. 2.000.000. Þá verði sameiginlegur kostnaður og óviss útgjöld lækkuð um kr. 27.000.000. Þar að auki verði viðhaldsliðir eignasjóðs lækkaðir um kr. 15.000.000 og  þjónustumiðstöðin lækki sinn kostnað um kr. 1.000.000.

Á fundinum var jafnframt samþykkt að beina fyrirmælum til viðkomandi nefnda, deildastjóra ásamt forstöðumanna stofnana um að vinna samkvæmt þessum tillögum um niðurskurð ásamt því að útfæra þær nánar í tengslum við endurskoðun fjárhagsáætlunar sem verður unnið að í apríl. Endurskoðuð fjárhagsáætlun verður síðan lögð fyrir bæjarráð í maí.

Á fundi fræðslunefndar sem haldin var 24. mars var samhljóða samþykkt bókun sem varðaði fyrrnefnda kostnaðarlækkun vegna fræðslumála. Í bókuninni lagði fræðslunefnd til að álagsgreiðslur í hádegi til starfsmanna leikskólanna verði endurskoðaðar sem fyrst. Tillaga hafi komið frá leikskólastjórum þar sem þeir lögðu til að dregið yrði verulega úr yfirvinnu vegna starfsmannafunda með því að fjölga skipulagsdögum leikskólanna úr fjórum í fimm og með því verði starfsmannafundir færðir á dagvinnutíma. Á ári verði því gert ráð fyrir þremur heilum starfsdögum og tveimur sem skipt verði á fjóra hálfa daga. Þá verði gerð sú breyting á innheimtu leikskólagjalda að foreldrar greiði fyrir allan þann tíma sem börnin eru í leikskóla, þ.e ekki verði lengur um gjaldfrjálsar 15 mínútur að ræða í upphafi og í lok leikskóladags.

Á fyrrnefndum fundi bæjarráðs þann 25. mars var samþykkt að fella niður álagsgreiðslur í hádegi hjá starfsmönnum leikskólanna en þær voru framlengdar tímabundið við gerð síðustu kjarasamninga. Álagsgreiðslunum verði sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara frá og með 1. apríl. Þá samþykkti bæjarráð jafnframt að foreldrar greiði fyrir þær 15 mínútur sem sem hafa verið gjaldfrjálsar í upphafi og lok leikskóladagsins.

Að lokum samþykkti bæjarráð að ekki verði greitt fyrir fleiri en tvo fastafundi ráðsins í mánuði þrátt fyrir að komi til aukafunda.