Hagir og líðan ungs fólks á Fljótsdalshéraði

Nýverið lauk úrvinnslu Rannsóknar og greiningar á rannsókn sem unnin var meðal allra nemenda í 8. – 10. bekk í Fljótsdalshéraði árið 2006. Niðurstöðurnar benda til að almennt verði fátt annað en gott sagt um hagi og líðan þessa aldurshóps í sveitarfélaginu.

Í könnuninni kemur fram að vímuefnaneysla er almennt minni en gerist í samanburðarhópunum og þátttaka í skipulögðu félagsstarfi jafnmikil eða meiri. Fulltrúar Rannsóknar og greiningar sem kynntu niðurstöðurnar vöktu sérstaka athygli á mikilvægi þess að horfa til hinna ýmsu félagslegu þátta, þar sé hið raunverulega forvarnarstarf unnið bæði hjá opiberum aðilum og forráðamönnum.

Einstök atriði skýrslunnar vekja umhugsun og kalla á markvissa umfjöllun.  Þetta varðar einkum útivistartíma, en mikið virðist vera um útveru seint, mun meira en í samanburðarhópunum. Eins vekur athygli að vaxandi hópur virðist verja minni tíma með foreldrum sínum, bæði virka daga og helgar en áður hefur verið. Fræðslunefnd sem fer með forvarnarmál í sveitarfélaginu hefur falið starfshóp að gera tillögur um stefnu í málaflokknum og mun hópurinn væntanlega jafnframt gera tillögur um aðgerðaráætlun í málaflokknum m.a. í ljósi þeirra niðurstaða sem hér hafa verið kynntar.

Fljótsdalshérað hefur gert samstarfssamning við Rannsóknir og greiningu, menntamálaráðuneytið og Háskólann í Reykjavík um úrvinnslu úr reglubundnum rannsókunum um ýmsa þætti sem varða hag og líðan ungs fólks í sveitarfélaginu frá árinu 2006 – 2010. Í skýrslunni sem núm var að koma út er samanburður við árið 2003 eða 2005 eftir því sem við á auk þess sem borið er saman við stöðu mála á höfuðborgarsvæðið eða landið allt.

Skýrsluna má nálgast í heild sinni á heimasíðu sveitarfélagsins undir þessum tengli.