Hækkun á sorpgjöldum afturkölluð

Fyrir fundi bæjarstjórnar 5. febrúar lá bréf frá Alþýðusambandi Íslands, dagsett 13. janúar 2014, þar sem skorað er á sveitarstjórnir að halda aftur af gjaldskrárhækkunum.

Í framhaldi af þessu erindi samþykkti bæjarstjórn eftirfarandi tillögu.
„Bæjarstjórn telur mikilvægt að samstaða náist um að halda aftur af verðhækkunum til að halda verðbólgunni niðri.
Að tillögu bæjarráðs samþykkir bæjarstjórn því að fallið verði frá fyrirhugaðri 2,5% hækkun sorphirðu- og sorpförgunargjalda og 3,2% vísitöluhækkun á sorp sem komið er með til söfnunarstöðvar. Sorpgjöld verða því óbreytt frá fyrra ári.“

Fjármálastjóra jafnframt falið að útbúa viðauka við fjárhagsáætlun ársins 2014, sem tekur mið af þessari breytingu og leggja fyrir næsta bæjarráðsfund.

Umrædd hækkun á sorpgjöldum var eina gjaldskrárhækkunin sem bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hafði lagt til og ákveðið fyrir árið 2014.

Borið hefur á því í fréttaflutningi sumra fjölmiðla af þessum málum, að Fljótsdalshérað hefur ranglega verið sagt hafa samþykkt hækkanir, svo sem á leikskólagjöldum og fl. Erfiðlega hefur hins vegar gengið að fá viðkomandi fjölmiðla til að birta leiðréttingar á þessum fréttum sínum. Það er því eðlileg krafa að fjölmiðlar kanni vel slíkar upplýsingar, áður en fréttum er slegið upp sem eiga svo ekki við rök að styðjast.