Grunnskólanemar fá þrívíddarprentara

Eitt fyrsta verkið sem framleitt var í þrívíddarprentaranum.
Eitt fyrsta verkið sem framleitt var í þrívíddarprentaranum.

Í frétt á vef Brúarásskóla kemur fram að Fljótsdalshérað sé sífellt að vinna að betri tæknibúnaði í grunnskólum héraðsins.

Nýjasta viðbótin er þrívíddarprentari sem skólarnir þrír á svæðinu, Brúarásskóli, Fellaskóli og Egilsstaðaskóli keyptu saman nú á vordögum. Prentarinn er þessa dagana í Brúarásskóla þar sem hann byrjar ævintýrið sitt, síðan fer hann á milli skóla til þess að sem flestir nemendur fái tækifæri til að vinna með hann.

Í fréttinni segir einnig: „Þrívíddarprentari er frábært verkfæri sem hægt er að nýta í forritun, smíðum, stærðfræði, upplýsingatækni og margt margt fleira.“