Grundvöllur Sláturfélags Austurlands styrktur

Fljótsdalshéraði og Fljótsdalshrepp voru í vikunni afhent hlutabréf gegn framlagi sveitarfélaganna til Sláturfélags Austurlands, sem hefur með höndum rekstur Kjötvinnslunnar Snæfells á Egilsstöðum. Með hlutafjáraukningunni vilja sveitarfélögin styðja við uppbyggingu mikilvægrar atvinnugreinar á Austurlandi.

Kjötvinnslan Snæfell hóf starfsemi í júlí 2011, en slík starfsemi hafði þá ekki verið rekin á Austurlandi í nokkur ár. Viðskiptavinum hefur fjölgað í vetur og lofar veltuaukning í maí góðu fyrir sumarið.

Kjötvinnslan er mikilvæg jafnt í því að selja til ferðaþjónustuaðila sem vilja bjóða upp á mat úr héraði og aðstoða við að selja beint til neytenda frá býli undir nafninu „Austurlamb“. Stofnaður hefur verið „kjötklúbbur“, en meðlimir hans njóta sérstakra kjara, sem eru kynnt reglulega á vefsíðunni www.snaefellkjot.is. Þá er hægt að nálgast kjöt frá Snæfelli í tveimur verslunum, í NETTÓ á Egilsstöðum og höfuðborgarbúar geta nú loksins nálgast þessa austfirsku gæðavöru í Fiskbúðinni við Höfðabakka í Reykjavík.

Myndin er frá afhendingu hlutabréfa í Sláturfélagi Austurlands til Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps. Á henni má sjá Björn Ingimarsson, Stefán Boga Sveinsson, Sigurjón Bjarnason, Gest Jens Hallgrímsson og Lárus Heiðarsson.