Græn sérstaða er auðlind

Um tuttugu manns mættu á kaffihúsafund um umhverfismál sem haldinn var þriðjudaginn 5. júní.  Fyrir fundinum stóð starfshópur um Staðardagskrá 21 fyrir Fljótsdalshérað og var tilgangur hans að fá fram ábendingar og hugmyndir um umhverfismál í sveitarfélaginu.

Þátttakendur ræddu spurninguna ,,Græn sérstaða Fljótsdalshéraðs er auðlind – hvernig viljum við standa vörð um hana og efla til framtíðar?”. Hvað sveitarfélagið sjálft varðar voru helstu skilaboð fundarins þau að sveitarfélagið þurfi umfram allt að vera góð fyrirmynd þegar kemur að umhverfismálum.  Fundarmenn lögðu jafnframt mikla áherslu á heildarsýn í úrgangsmálum.

Þá kom fram áhersla á mikilvægi þess að íbúarnir sjálfir leggi sitt af mörkum þegar um umhverfismál er að ræða. Þegar fundarmenn voru beðnir um að forgangsraða verkefnum í því samhengi kom fram að þeir verða að bæta eigin umgengni og ábyrgð. Einnig að fræða þurfi börnin betur um ýmislegt er varðar umhverfismál og að það þurfi að leggja meiri áherslu á flokkun úrgangs og vistvæna meðhöndlun hans.

Starfshópurinn mun nú vinna úr skilaboðum fundarins og nýta þau við gerð Staðardagskrár 21 og endurskoðun á stefnu sveitarfélagsins. Auk þess munu þau nýtast við ákvarðanatökur á vegum sveitarfélagsins og endurspeglast í aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs sem nú er unnið að.