Eins og íbúar Fljótsdalshéraðs hafa tekið eftir hefur verið unnið að því að koma fyrir lýsingu í Selskóginum, frá göngustígnum sem liggur frá Eiðavegi og upp í Selskóg. Lýsingin nær nú þegar langleiðina að Vémörk en stefnt er að því að kveikja á öllum staurunum í byrjun desember.
Haldin verður ákveðin viðhöfn í tilefni þessa og mun hún verða auglýst síðar.
Ljósastaurarnir eru lágir, eða 3,2 metrar, þeir standa nokkuð þétt en lýsingin er mjög dempuð til að takmarka sem mest áhrif birtunnar annars staðar en á sjálfum stígnum . Þegar hefur verið plægður niður rafmagnsstrengur og búið er að reisa 35 af þeim 41 staur sem til stendur að setja með göngustígnum. Ekki tekst hins vegar að klára uppsetningu ljósastauranna fyrr en á næsta ári þar sem eftir er að ljúka við gerð göngustígs vestan við fótboltavöllinn á svæðinu.
Það eru Rarik og Fljótsdalshérað sem sameiginlega standa að uppsetningu ljósastauranna.
Mikil vinna hefur verið lögð í það undanfarin ár að gera Selskóginn að fjölskylduvænu svæði. Lýsing á þessum hluta stígsins á eflaust eftir auka við þá möguleika sem skógurinn býður upp á til útivistar og afþreyingar.