- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Lýðheilsuverkefnið Göngum í skólann er árvisst verkefni sem skólar víðs vegar um heiminn taka þátt í. Megin markmið verkefnsins er að hvetja börn og unglinga til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Til viðbótar er reynt að stuðla að vitundarvakningu fyrir virkum ferðamáta og umhverfismálum og því hversu auðvelt er að ferðast um gangandi í nærumhverfinu.
Á Íslandi er Göngum í skólann samstarfsverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Embættis landlæknis, mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Ríkislögreglustjóra, Samgöngustofu, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og Heimilis og skóla. Verkefnið er alþjóðlegt og á síðasta ári tóku milljónir barna frá 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vef þess www.gongumiskolann.is
Á Fljótsdalshéraði hvetja grunnskólar sína nemendur til að nýta virka ferðamáta til og frá skóla en að auki er gaman að segja frá því að í öllum skólunum eru árlegir viðburðir sem hvetja til aukinnar hreyfingar og útivistar, auk þess að kynna fyrir nemendum nýja staði á Héraði.
Í Fellaskóla hefst skólastarf að hausti öllu jöfnu á Útiviku. Þá viku eru allir nemendur skólans í útivist fyrstu fimm skóladagana, að skólasetningardegi meðtöldum. Keppt er í hinum ýmsu þrautum þann dag og fær þríþraut t.d. alveg nýja merkingu. Í Útiviku hjólaði miðstig t.a.m. yfir í Egilsstaði og spilaði þar frisbígolf, minigolf og ringó. Útiviku Fellaskóla lýkur svo á göngudegi. Í ár fóru allir nemendur í Hallormsstað. Nemendur yngsta stigs voru við Trjásafnið og gengu þaðan yfir í Atlavík. Miðstigsnemendur gengu í Bjargselsbotna og nemendur á elsta stigi örkuðu alla leið yfir Hallormsstaðaháls.
Nemendur Egilsstaðaskóla fagna göngudegi í september hvert ár með því að hver árgangur fer í sína gönguferð. Er gengið að nokkrum Perlum Fljótsdalshéraðs og yngstu nemendurnir fara í styttri ferðir einnig. Til að mynda ganga 10. bekkingar í Stórurð, en það er gjarnan í fyrsta sinn sem mörg þeirra koma á þann stað, 9. bekkingar í Stapavík og 5. bekkingar upp á Rauðshaug.
Þó svo að það sé dálítið erfitt fyrir nemendur Brúarásskóla að ganga í skólann á hverjum degi var farið í haustferð þar sem allir nemendur gengu í Jökuldalsheiðinni. Hver skóli leggur þannig sitt af mörkum til verkefnis sem skiptir máli bæði hvað varðar heilsueflingu nemenda og umhverfisvernd.