- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Göngum í skólann er árvisst verkefni sem skólar víðs vegar um heiminn taka þátt í. Megin markmið verkefnisins eru að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Auk þess er reynt að stuðla að vitundarvakningu fyrir virkum ferðamáta og umhverfismálum og því hversu auðvelt er að ferðast um gangandi í nærumhverfinu.
Verkefnið fer nú af stað í 12. sinn á Íslandi og stendur yfir frá 5. september til 10. október. Við hvetjum forráðamenn til að nota þetta tilefni til að ganga með börnunum sínum í skólann og nota um leið tækifærið til að ræða um umhverfi gönguleiðarinnar og kenna ungum skólabörnum að umgangast þær hættur í umferðinni sem gætu komið upp á leið þeirra. Gangan saman getur líka verið skemmtilegt tækifæri til að spjalla um skóladaginn eða annað sem ekki hefur gefist tóm til að ræða við annað tækifæri.
Á Íslandi er Göngum í skólann samstarfsverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Embættis landlæknis, Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Ríkislögreglustjóra, Samgöngustofu, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og Heimilis og skóla. Verkefnið er alþjóðlegt og á síðasta ári tóku milljónir barna frá 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vef þess www.gongumiskolann.is.