Góður árangur í flokkun sorps

Það sem af er þessu ári hafa um 400 tonn fallið til á heimilum í sveitarfélaginu. Af þeim eru um 110 tonn lífrænn úrgangur sem var jarðgerður í jarðgerðarvélinni (87 tonn), jarðgerður í þar til gerðum tunnum (t.d. í dreifbýlinu) eða endað sem dýrafóður. Rúm 100 tonn eru endurvinnanlegur úrgangur sem var fluttur á ýmsa staði til endurvinnslu. 180 tonn eru svo óendurvinnanlegt sorp sem hefur verið urðað. Þetta þýðir að vegna flokkunarinnar hafa, það sem af er ári, sparast um 2,5 milljónir í sorpflutning og -förgun.

Munurinn á magni sorps sem tekið er frá heimilum í dreifbýli annars vegar og þéttbýli hins vegar er ekki mikill. Nákvæmlega helmingur sorps í dreifbýli endar í urðun en sambærileg tala fyrir þéttbýlið er 44%. Þessar tölur sýna að góður árangur hefur náðst í flokkun sorps frá heimilum hér á Fljótsdalshéraði og ekkert bendir til annars en að íbúar haldi áfram að flokka sitt sorp!