Góð aðsókn í póstkortasamkeppnina

Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs stóð nýverið fyrir póstkortasamkeppni þar sem kallað var eftir myndskreytingum, ljósmyndum eða teikningum sem tengdust austfirskri menningu, listum, náttúru eða þjóðsögum. Alls bárust 202 tillögur alls staðar að af Austurlandi, allt frá Vopnafirði til Hafnar í Hornafirði.

Valnefndin kom saman föstudaginn 12. mars og tók sér góðan tíma í að velja fjórar verðlaunatillögur, sem prentaðar verða sem póstkort og seldar á öllu Austurlandi í sumar. Fyrir valinu urðu myndir eftir Stefaníu Ósk Ómarsdóttur, Skarphéðin G. Þórisson, Júlíu Ásvaldsdóttur og Agnieszka Sosnowska. Þar að auki voru valin tvö verk sem menningarmiðstöðin mun nota í kynningarefni og fleira fyrir Fljótsdalshérað og Ormsteiti en þeir sem áttu þær tillögur voru Hanna G. Þráinsdóttir og Ólöf Valgarðsdóttir.

Í valnefndinni voru Ingunn Þráinsdóttir grafískur hönnuður og framkvæmdastjóri MMF, Karen Erla Erlingsdóttir frístunda- og menningarfulltrúi Fljótsdalshéraðs, Halldór B. Warén Sláturhússtjóri, Fjölnir Björn Hlynsson listamaður og Pétur Behrens myndlistarmaður.

Er öllum þátttakendum sendar bestu þakkir fyrir góða þátttöku og fallegar innsendingar en starf nefndarinnar var alls ekki auðvelt því margar mjög fallegar myndir bárust í keppnina.

Meðfylgjandi er mynd frá störfum valnefndar.