Alþjóðlega vídeó- og tilraunakvikmyndahátíðin 700IS Hreindýraland var sett í fimmta sinn um nýliðna helgi í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Veitt voru þrenn verðlaun við setningu hennar: Patrick Bergeron frá Quebec í Kanada hlaut verðlaun fyrir Verk hátíðarinnar ,,LoopLoop". Íslenskt verk hátíðarinnar var valið myndin ,,Lóla, eftir Áslaugu Einarsdóttur. Í fyrsta skipti voru Alternative Routes verðlaunin veitt, en þau eru hluti af samstarfsverkefni 700IS við þrjár aðrar hátíðir í Evrópu, sem hlaut Evrópustyrk á síðasta ári.
Alternative Routes verðlaunin hlaut Sara Björnsdóttir fyrir mynd sína ,,Salem Lights" og mun það verk ferðast til Debrecen í Ungverjalandi nú í maí á hátíðina INTERMODEM og til Portó í Portúgal í nóvember á þessu ári á hátíðina FRAME Research.
Á 700IS Hreindýraland á næsta ári, 2011, verður ,,Salem Lights sýnt aftur ásamt verðlaunaverkum hinna hátíðanna og að lokum á
moves í Liverpool í apríl 2011 en þá verður líka útgáfu sameiginlegrar sýningaskrár Alternative Routes verkefnisins fagnað.
Þessa vikuna eru sýnd hátt í 80 verk í Sláturhúsinu á Egilsstöðum og verk eftir Steinu er sýnt á 6 risaskjám í frystiklefanum. Jym Darling, gestalistamaður frá Írlandi sýnir í kyndiklefanum og Asle Lauvland Pettersen gestalistamaður frá Noregi sýnir á Vesturveggnum í Skaftfelli.
Fyrirlestrar og listamannaspjall hefur farið fram í Menntaskólanum á Egilsstöðum og í Sláturhúsinu síðustu daga og auk þess er sérstök sýningardagskrá í Hlymsdölum, Félagsheimili eldri borgara. Einnig má nefna að mörg hundruð nemendur af öllum skólastigum heimsækja hátíðina í Sláturhúsinu.
Hátíðin verður út vikuna og dagskráin er öll á heimasíðu hátíðarinnar
www.700.is .
Vakin er athygli á lokahóf hátíðarinnar, laugardaginn 27. mars, þar sem gestalistamaður búsettur á Austurlandi, Charles Ross, ásamt Matta Saarinen, sýnir verk í sundlauginni á Eiðum og fleiri listamenn búsettir á Austurlandi sýna verk sín við sama tækifæri. Lokahófið fer fram á Eiðum og allir eru velkomnir.
Aðgangur að öllum dagskrárliðum er algjörlega ókeypis.