Gengið á Grænafell á degi íslenskrar náttúru

UÍA í samstarfi við Fljótsdalshérað, Fjarðabyggð og Náttúrustofu Austurlands efnir til göngu á Grænafell, í tilefni af degi íslenskrar náttúru, sunnudaginn 16. september 2012.

Gengið verður upp beggja vegna fellsins og hittast hóparnir á toppnum, borða nesti og skemmta sér saman.  Fjarðamenn hefja gönguna við Grænafellsvöll klukkan 11 og njóta liðsagnar Þóroddar Helgasonar fræðslustjóra Fjarðabyggðar á leið sinni á tindinn. Héraðsmenn ganga af stað frá bílastæðinu við fellið Fagradalsmegin,  (merkt með gönguskilti) á sama tíma undir leiðsögn Skarphéðins Þórissonar frá Náttúrustofu Austurlands.

Gangan er ætluð öllum og verður hraðinn miðaður við það, auðveldara er að ganga frá bílastæðinu á Fagradal en leiðin frá Grænafellsvelli er ögn brattari en auðgeng.  Áætlað er að gangan á toppinn taki um hálfa aðra til tvær klukkustundir. Fólki er bent á að klæða sig skynsamlega og taka með sér nestisbita.

Gönguhrólfar eru hvattir til að sameinast í bíla. Héraðsmenn sameinast í bíla við UÍA skrifstofuna, Tjarnarási 6 kl 10.40 og Norðfirðingar við Náttúrugripasafnið í Neskaupstað, Egilsbraut 2 kl 10.00.