Fyrsti samráðsfundur með starfsfólki sameinaðs sveitarfélags

Undirbúningsstjórn sem vinnur að innleiðingu sameinaðs sveitarfélags leggur mikla áherslu á að sameiningarferlið verði gagnsætt og upplýsingar aðgengilegar um verkefnin framundan. Starfsfólk sveitarfélaganna eru lykilaðilar í því að vel takist til og var ákveðið að fyrsta verkefni væri hefja samráð við starfsfólk.

Miðvikudaginn 20. nóvember mættu um 80 starfsmenn sveitarfélaganna til fundar á Hótel Héraði. Í þeim hópi voru starfsfólk bæjarskrifstofa og stjórnendur, en sameiningin mun hafa meiri áhrif á þeirra hlutverk en annarra starfsmanna. Áætlað er að eiga samráð við aðra starfsmenn í upphafi nýs árs. Markmið fundarins var að kynna stöðuna á verkefninu og upplýsa um næstu skref.

Undirbúningsstjórnin er meðvituð um mikilvægi þess að byggja upp skilning á mikilvægi breytinganna og útskýra hvað í þeim felst. Á fundinum kynnti Róbert verkefnisstjóri helstu verkefni í sameiningarferlinu næstu 6 mánuðina og áætlaða tímalínu. Tímalínan er ekki endanlega afgreidd, en hún miðar við að nýtt sveitarfélag taki til starfa í lok apríl eða byrjun maí.

Aðalverkefni fundarins var hins vegar að heyra væntingar starfsmanna og ræða hvað þau telja að sé mikilvægt að hafa í huga í ferlinu framundan. Starfsmenn fengu tækifæri til að tjá sig og lögðu fram fjölda ábendinga sem nýtast í vinnunni. Á nýju ári taka starfshópar til starfa, þar sem starfsmenn vinna að einstökum verkefnum í sínum málaflokkum.

Upplýsingum um verkefnið verður áfram miðlað á vefsíðunni svausturland.is og facebook síðunni Sveitarfélagið Austurland. Þar er enn hægt að senda inn spurningar og ábendingar sem svarað verður á síðunni.