Á miðvikudag 4. júní var tekin fyrsta skóflustunga að viðbyggingu Grunnskólans á Egilsstöðum. Það voru börn í 3.-10. bekk sem tóku fyrstu skóflustunguna, en hver bekkur átti tvo fulltrúa.
Það voru því margar skóflustungar teknar á sama augnablikinu og má með sanni segja að framkvæmdir fari af stað með krafti.
Ljóst hefur verið í nokkur ár að þörf er á bættri vinnuaðstöðu nemenda og kennara í Egilsstaðaskóla. Með viðbyggingunni verður leyst úr brýnni þörf sem þar hefur skapast. Þegar ný skólabygging Egilsstaðaskóla er tilbúin verður hætt að kenna nemendum í 1. og 2. bekk á Eiðum. Þannig verður Egilsstaðaskóli á nýjan leik skipaður öllum bekkjum grunnskóla. Gert er ráð fyrir sérstakri deild fyrir yngstu nemendur í nýbyggingunni.
Fljótsdalshérað samdi við Malarvinnsluna hf. um framkvæmdina. Áætlaður framkvæmdatími er 15 mánuðir, og ætti stærstur hluti húsnæðisins því að vera tilbúinn haustið 2009. Heildarframkvæmdakostnaður er áætlaður 1.400 milljónir króna.
Til að rýma fyrir framkvæmdunum munu 3., 4., og 5. bekkur verða í húsnæði Alþýðuskólans á Eiðum á næsta skólaári, þannig að helmingur skólans verður á Eiðum næsta vetur, 1. og 2. bekkur eins og fyrr í Barnaskólanum á Eiðum og 3.-5. bekkur í Alþýðuskólanum.
Viðbygging við núverandi skólahúsnæði er samtals 4.000 fermetrar að stærð. Fyrir er skólahúsnæðið 2.800 fermetrar. Byggingin sem nú rís er skeifulaga. Skjól verður þannig til við útisvæði nemenda frá norðanáttinni. Í byggingunni eru heimastofur yngstu nemenda sem eru í hjarta skólans. Einnig myndast heildræn tenging suður í Tjarnargarðinn þar sem er útivistarsvæði og möguleg staðsetning nýs tónlistarskóla.
Nánar um hönnun Egilsstaðaskóla:
Hönnuðir nálguðust verkefnið strax í upphafi á þeim forsendum að skapa spennandi umhverfi fyrir nemendur og starfsfólk og aðra sem eiga erindi í skólann og félagsmiðstöðina. Því markmiði þurfti að ná á hagkvæman hátt og með góðum tengingum við eldri skólabyggingu þannig að nýbyggingar og eldra hús myndi eina heild. Jafnframt þurfti að taka mið af aðstæðum og náttúru í grenndinni.
Vestan við núverandi skólahús verður aðalbygging skólans ásamt hverfis- og félagsmiðstöð. Þar verður á 2. hæð (aðkomuhæð) aðalinngangur, skrifstofa umsjónarmanns félagsmiðstöðvar, setustofa nemanda og söluskáli, megin stigahús skólans, hátíðarsalur, leiksvið og tónlistarstofa, sem og mötuneyti og eldhús. Einnig er þar inngangur að skrifstofu skólans. Á 1. hæð er tenging við heimastofur yngstu nemendanna. Á 3. hæð er tómstundaherbergi, herbergi nemendaráðs, tölvuver, bókasafn og fyrirlestrarsalur.
Suð-austan við núverandi byggingar og norðan við félagsmiðstöðina „Nýjung“ verður bygging á þremur hæðum sem hýsir fyrst og fremst sérgreinakennslustofur fyrir verk- og myndmennt. Á 1. hæð er smíðastofa og er þar einnig innkeyrsla fyrir aðföng og aðgengi að sorpi. Á 2. hæð (aðkomuhæð) er inngangur eldri nemenda og kennslustofa í heimilisfræðum. Á 3. hæð er hannyrðastofa og myndmenntastofa.
Í miðrými sem myndast af ofangreindum byggingum og eldri byggingum er á 1. hæð inngangur fyrir yngstu nemendurna og heimastofur þeirra. Þar er einnig lokaður garður, sem er umlukinn umferðarleiðum að heimastofum og hópherbergi sérgreina fyrir yngstu nemendurna. Ofan á þessari byggingu er aðkoma og leiksvæði eldri nemenda. Fyrir framan bygginguna er leiksvæði yngstu nemendanna.
Byggingin verður úr forsteyptum einingum og verður steypuútlit látið halda sér. Þannig myndar steypan andstæðu og samspil við mikla glerfleti og sterka liti við innganga. Inni er lögð áhersla á birtu og opin rými sem skapa eiga grundvöll fyrir líflegt og notalegt skólastarf.