Fyrirtæki og stofnanir hvött til að gera jafnréttisstefnu

Á fundi bæjarráðs Fljótsdalshéraðs í gær, 12. desember, var tekið undir áskorun jafnréttisnefndar til fyrirtækja og stofnana í sveitarfélaginu um að þau setji sér jafnréttisstefnu. Fyrirhugað er að bréf þessa efnis muni berast fyrirtækjum og stofnunum í byrjun næsta árs.

Samkvæmt lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla nr. 96/2000 ber öllum fyrirtækjum og stofnunum þar sem starfa fleiri en 25 manns að setja sér jafnréttisáætlun. Í 13. grein laganna kemur fram að í slíkri áætlun þarf að kveða á um launajafnrétti, laus störf, starfsþjálfun og endurmenntun, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og kynferðislega áreitni.

Jafnréttisnefnd Fljótsdalshéraðs hefur rætt gerð jafnréttisáætlana hjá fyrirtækjum og stofnunum innan marka sveitarfélagsins. Ekki liggja hins vegar fyrir hjá nefndinni upplýsingar um hve mörg fyrirtæki eða stofnanir á Fljótdalshéraði hafa sett sér slíkar áætlanir.

Á fundi jafnréttisnefndar Fljótsdalshéraðs, sem haldinn var 3. desember síðast liðinn, var samþykkt að          skora á stofnanir sveitarfélagsins, og önnur starfandi fyrirtæki innan þess, að vinna markvisst að gerð jafnréttisáætlana í samræmi við gildandi lög og taka um leið mið af jafnréttisstefnu sveitarfélagsins. Því er um leið beint til fyrirtækja að þau hafi mótað slíka stefnu fyrir árslok 2008. Fyrst og fremst er þetta gert til að hvetja stjórnendur, starfsmannastjóra og trúnaðarmenn í stofnunum og fyrirtækjum, og vekja til umhugsunar og umræðna um stöðu jafnréttismála. Jafnréttisnefnd telur að slík áskorun virki sem hvatning og sé holl og nauðsynleg.  Í þessu samhengi má nefna atriði eins og þau að vinnustaðir móti sér metnaðarfulla stefnu t.d. í ráðningarmálum sem mótist af jákvæðni og opnum hug, s.s. varðandi jafna möguleika kynjanna til starfa, möguleika fatlaðra, fólks af erlendu bergi brotið o.s. frv. Einnig að stjórnendur  geri grein fyrir því hvernig fyrirtækin hyggist framfylgja jafnréttisstefnu sinni.

Í framhaldi af ofangreindri bókun hvetur jafnréttisnefnd Fljótsdalshérað stofnanir og fyrirtæki til að setja sér jafnréttisáætlun og ljúka því verki á árinu 2008. Þetta á sérstaklega við þar sem starfsmenn eru 25 eða fleiri, en fámennari fyrirtæki eru einnig hvött til að setja sér slíka áætlun. Jafnréttisnefndin hyggst á árinu 2009 gera könnun á framvindu málsins meðal fyrirtækja og stofnana.