- Stjórnsýsla
- Þjónusta
- Mannlíf
Í bæjarráði hefur verið fjallað um aðgengi íbúa sveitarfélagsins að kjörnum fulltrúum. Ákveðið var að breyta fyrirkomulagi á auglýstum viðtalstímum næsta vetur frá því sem verið hefur og samþykkti bæjarstjórn eftirfarandi hugmyndir þar um nýlega. Einhverjar útfærslubreytingar kunna þó að verða gerðar, gerist þess þörf.
Á komandi vetri verða viðtalstímar bæjarfulltrúa Fljótsdalshéraðs m.a. með eftirfarandi hætti.
Bæjarstjórnarbekkurinn verður haldinn í þrjú skipti. Í Nettó fimmtudaginn 19. október, á jólamarkaði Barra sem haldinn er fyrri hluta desember og í Nettó fimmtudaginn 23. febrúar.
Einnig verður hægt að óska eftir formlegum viðtalstíma við bæjarfulltrúa, með því að hafa samband við bæjarskrifstofuna og panta tíma með amk. tveggja daga fyrirvara. Reynt verður að tryggja að í þá viðtalstíma mæti bæði fulltrúi frá meirihluta og minnihluta. Gert er ráð fyrir að viðtalstímarnir verði á fimmtudögum frá klukkan 17:00 til klukkan 18:30, en þó einungis ef fyrir liggur beiðni um viðtal frá íbúum.
Eins og áður verður líka hægt að hafa beint samband við einstaka bæjarfulltrúa, bæði með tölvupósti og einnig í síma, kjósi fólk að ræða erindi sitt við einhvern ákveðinn fulltrúa. Upplýsingar um netföng og GSM númer kjörinna fulltrúa er m.a. að finna á heimasíðu Fljótsdalshéraðs undir Stjórnsýsla/Bæjarstjórn.