Fundur vegna verkefna- og fjárhagsstöðu fyrirtækja

Þriðjudaginn 13. október verður haldinn fundur á Hótel Héraði, Egilsstöðum, um atvinnumál og þá sér í lagi stöðu og framtíð verktaka- og bygginarstarfseminnar. Til fundarins hefur verið boðið ráðherrum úr ríkisstjórn, fulltrúum fjármálafyrirtækja, þingmönnum kjördæmisins, sveitarstjórnarmönnum á Fljótsdalshéraði og Austurlandi og fulltrúum frá fyrirtækjum á Fljótsdalshéraði.

Tilefni fundarins er erfið staða í þeim geira atvinnulífsins sem snýr að byggingar- og verktakastarfsemi ýmis konar, á Fljótsdalshéraði og landinu öllu. Um þessi mál var eftirfarandi bókað fyrir stuttu í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs: „Eins og nú horfir er mikil óvissa um flest mál á Íslandi. Það á ekki síst við um allar verklegar framkvæmdir, byggingariðnað, jarðvinnslu, vegagerð og skylda starfssemi. Þar er skuldsetning í erlendum lánum að kollkeyra rótgróin fyrirtæki og verkefnastaðan og framtíðin verulega óljós. Nauðsynlegt er allir leggist á eitt og leiti leiða til að minnka óvissu og koma verkefnum af stað á nýjan leik.
Næg verkefni eru fyrirliggjandi og með sameiginlegu átaki, réttri fjármögnun og öguðum vinnubrögðum er hægt að endurreisa þennan hluta atvinnulífsins á nýjan leik. Sveitarfélagið Fljótsdalshérað vill leggja sitt af mörkum og leita allra leiða til þess að forða því að heil undirstöðuatvinnugrein hverfi úr landi og leggist af.“

Fundurinn hefst kl. 16.00 og er öllum opinn og eru íbúar og atvinnurekendur á Austurlandi hvattir til að mæta.

Fundarstjóri verður Eiríkur B. Björgvinsson bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs en dagskráin er eftirfarandi:
Fundarsetning : Guðmundur Ólafsson form atvinnumálanefndar Fljótsdalshéraðs
Framsögu flytja :
- Steingrímur J Sigfússon fjármálaráðherra og 1. þingmaður kjördæmisins eða Björn Valur Gíslason þingmaður og varaformaður fjárlaganefndar
- Jón Steindór Valdimarsson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins
- Halldór Jörgensson framkvæmdastjóri Lýsingar – eða annar fulltrúi fjármálafyrirtækja.