Fundur um tækifæri Egilsstaðaflugvallar

Föstudaginn 26. nóvember verður haldinn opinn fundur í hádeginu á Hótel Héraði um markaðssetningu og tækifæri tengd Egilsstaðaflugvelli. Fundurinn hefst kl. 12.00 og er hægt að kaupa sér súpu meðan á honum stendur. Framsögumenn verða þær Elín Árnadóttir fjármálastjóri ISAVIA ( rekstraraðili flugvalla á Íslandi) og Ásta Þorleifsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Austurlands, en fundarstjóri verður Björn Ingimarsson bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs. Allir áhugasamir um flugvöllinn, ferðamennsku, flugrekstur og önnur tækifæri sem tengd eru flugvellinum eru því hvattir til að fá sér súpu í hádeginu á Hótel Héraði föstudaginn 26. nóvember og taka þátt í umræðum um flugvöllinn.

Sama dag, þ.e. á föstudaginn, kemur saman samráðshópur sem skipaður var að frumkvæði bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs. Samráðshópurinn á að vinna að aukinni markaðssetningu Egilsstaðaflugvallar. Hópinn skipa fulltrúar Fljótsdalshéraðs, Þróunarfélags og Markaðsstofu Austurlands og ISAVIA, sem er rekstraraðili flugvallanna á Íslandi. Markmiðið með stofnun samráðshópsins er að leita allra leiða til að auka umferð um Egilsstaðaflugvöll, með öllum þeim margfeldisáhrifum sem flug og flugrekstur leiðir af sér.

Flugvöllurinn á Egilsstöðum hefur alla burði til að verða enn öflugri hlekkur í samgöngum landsmanna og ferðamennsku á öllum norðurhjara veraldar. Flugvöllurinn er í dag annar af tveimur varaflugvöllum í millilandaflugi og flugi yfir Atlantshafið og er vel búinn tækjum og tólum að flestu leyti, þó sífellt komi ný tækni sem þarf til að bæta aðstöðuna. Nú fyrir stuttu voru t.d. tekin í gagnið ný leiðarljós til að tryggja enn frekar aðflugsöryggi að flugvellinum.