Fræðslufundur um Olweusáætlun gegn einelti fyrir starfsfólk í tómstunda- og íþróttastarfi á Egilsstöðum var haldinn í Grunnskólanum Egilsstöðum mánudaginn 21. október. Um fjörtíu manns mættu á fundinn.
Á fundinum fór Jarþrúður Ólafsdóttir verkefnastjóri Olweusarverkefnisins í Grunnskólanum Egilsstöðum og Eiðum og kennsluráðgjafi við Skólaskrifstofu Austurlands yfir helstu atriði Olweusaráætlunar svo sem birtingarform eineltis og hvaða viðbrögð fullorðnir verða að sýna þegar þeir verða varir við einelti meðal barna og unglinga hvort sem er í skólum eða tómstundastarfi.
Sigurbjörg Hvönn Kristjánsdóttir deildarstjóri í Egilsstaðaskóla sem er íþróttakennari að mennt fór yfir hvernig einelti getur birst í íþróttum og viðbrögð við því.
Á fundinn mættu 40 manns, stjórnarmenn og þjálfarar úr íþróttafélaginu Hetti, fulltrúar úr æskulýðsstarfi kirkjunnar, frá félagsmiðstöðinni, skátunum, íþróttamiðstöðinni og tónlistarskólanum. Rætt var um mikilvægi þess að góð tengsl væru milli grunnskólans og allra þessarra aðila í framtíðinni og hugmynd kom upp um að halda saman fundi að hausti og vori ár hvert þar sem minnt væri á áhrif eineltis á líf og heilsu barna og unglinga.
Innleiðing Olweusaráætlunar hófst í Grunnskóla Egilsstaða- og Eiða í janúar á þessu ári en leitað var til Skólaskrifstofu Austurlands um verkefnastjórn á innleiðingartímanum.