Umhverfisráðuneytið telur ekki ástæðu til að hækka verð á hreindýarviðileyfum samkvæmt vísitölu.
Þetta kom fram á fundi sem dreifbýlis- og hálendisnefnd Fljótsdalshéraðs átti með Ingimar Sigurðssyni ráðuneytisstjóra í umhverfisráðuneytinu.
Skarphéðinn Smári Þórhallsson dreifbýlis- og hálendisfulltrúi segir að óskað hefði verið eftir þessum fundi með ráðuneytinu í júní í fyrra en núna fyrst hafi verið hægt að verða við beiðninni. Hann segir hreindýraveiðileyfi víða hafa hækkað en þó minnst á eftirsóttustu og dýrustu svæðunum, sem bæði séu innan Fljótsdalshéraðs. Raunvirði veiðileyfa á svæði 1 og 2 hefur lækkað frá árinu 1998 og þetta bitnar verst á landeigendum á Fljótsdalshéraði, sem fá því minni arð í sinn hlut, segir Skarphéðinn Smári og bætir við að með hækkun leyfanna kæmu auk þess meiri peningar til rannsókna. Hann segir rök ráðuneytismanna vera þau að dýrin séu almenningseign og því megi ekki hækka leyfin um of. Skarphéðinn Smári bendir á að verðið sé ekki að hamla veiðimönnum að sækjast eftir leyfum því á þriðja þúsund umsóknir hafi nú borist um þau 1.100 dýr sem fella megi í haust. Hann segir veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar hafa viljað fylgja vísitölu við verðlagningu en það gerir tillögu til ráðuneytis um kvóta. Það hafi ráðuneytið ekki viljað fallast á og segist ráðuneytismenn ekki vilja binda verð við eftirspurn og bendi á að breyta þurfum lögum. Þar sé hinsvegar ekkert ákvæði um að ekki megi vísitölubinda verðið. Það sé ákveðið árlega og fyrst verið sé hækka á einhverjum svæðum megi alveg eins vísitölubinda það allsstaðar. Skarphéðinn Smári segir nefndina vilja meiri áhrif heim í hérað þó svo að endanlegt vald verði alltaf hjá ráðherra.
Dreifbýlis- og hálendisnefnd samþykkti bókun á fundinum, þar sem hún óskar eftir því að umhverfisráðherra beiti sér fyrir endurskoðun laga um stjórn hreindýraveiða og nefndin vill að tryggt verði samráð við hreindýraráð og sveitarfélögin á Austurlandi.
Nefndin hefur ýmsar hugmyndir sem hún vill leggja inn í þessa vinnu, m.a. þá að tekinn verði frá einhver ákveðinn fjöldi dýra, t.d. fyrir ferðaþjónustu.