Fundað með aksturíþróttafélögum

Bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs boðaði til fundar með Akstursíþróttafélaginu Start og Bifhjólaklúbbnum Goðum í gær í vegna fréttar um að vélhjólasamtök sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi ætluðu að koma sér upp aðstöðu á Egilsstöðum.

Á fundinum kom fram að að félögin hafi ekki átt í neinum samskiptum við þau samtök sem lögreglan fylgist með „enda ekki í anda þeirrar stefnu er þau starfa samkvæmt“. Áfram segir að félögin leggi „ríka áherslu á að koma á framfæri þeirri jákvæðu stefnu er þau hafa að leiðarljósi í sínu starfi sem m.a. á að vera til þess fallin að sporna gegn því að skipulögð glæpastarfsemi skjóti rótum á svæðinu undir fölsku flaggi.“

Áformað er að halda fljótlega opinn fund um málið með fulltrúa lögreglu en þar verður einnig gerð grein fyrir því starfi sem unnið er að hjá félagsamtökum og fyrirhuguðu samstarfi með þeim sveitarfélaginu.

Á myndinni má sjá þá sem sátu fundinn en það voru Björn Ingimarsson bæjarstjóri, Guðrún Frímannsdóttir félagsmálastjóri og Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar, fulltrúar Goða voru Ingvar Hrólfsson formaður, Heiðar Sölvason gjaldkeri og Hjörtur Óli Sigurþórsson meðstjórnandi og fulltrúi START var formaðurinn Atli Vilhelm Hjartarson.