Fulltrúi Fljótsdalshéraðs fer á Faroexpo

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 5. september að senda fulltrúa á fyrirtækjastefnumótið Faroexpo og menningarviku sem haldin verður seinni partinn í október í Runavík í Færeyjum, en Runavík og Fljótsdalshérað hafa sem kunnugt er með sér vinabæjasamstarf samkvæmt ákveðnum sáttmála þar um. Jafnframt hvatti bæjarstjórn fyrirtæki á Fljótsdalshéraði til að kynna sér þennan viðburð með hugsanlega þátttöku í huga.

Þrír fulltrúar frá Runavík heimsóttu Fljótsdalshérað á Ormsteitinu og skoðuðu atvinnusýninguna sem fram fór í Egilsstaðaskóla í ágúst og fluttu þar m.a. erindi. Einnig héldu þeir kynningarfund með fulltrúum atvinnulífsins á Héraði, bæjarfulltrúum og starfsmönnum, þar sem þeir kynntu Faroexpo http://faroexpo.fo/ og hvöttu fyrirtækin til þátttöku. Fundurinn var þokkalega sóttur og kom fram áhugi heimamanna fyrir fyrirtækjastefnumótinu.