Fulltrúar í fræðslunefnd heimsækja stofnanir

Mikilvægt er  fyrir fulltrúa í fræðslunefnd að koma í þær stofnanir sem eru starfræktar á fræðslusviði og fá þannig tækifæri til að kynnast starfseminni á hverjum stað fyrir sig. Síðastliðinn mánudag fóru nefndarmenn í heimsókn í skóla og félagsmiðstöð á Egilsstöðum og framundan er að heimsækja aðrar stofnanir á næstu vikum.

Í heimsókninni á mánudaginn var komið við í Egilsstaðaskóla, Tónlistarskólanum á Egilsstöðum, Skólamötuneytinu, félagsmiðstöðinni Nýung og báðum starfsstöðvum leikskólans Tjarnarskógar. Alls staðar var vel tekið á móti nefndarmönnum sem fengu tækifæri til að fylgjast með nemendum í starfi í skólunum og fjörmiklu félagsstarfi í Nýung.

Á myndinni er nemandi í Egilsstaðaskóla að segja formanni fræðslunefndar frá verkefni um jörðina sem nemendur voru að vinna.