Frisbígolfvöllurinn í Tjarnargarðinum

Fyrir stuttu var í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum tekinn í notkun frisbígolfvöllur. Frisbí, eða folf, nýtur sívaxandi vinsælda enda um einfalda íþrótt að ræða sem hentar flestum. Völlurinn í Tjarnargarðinum er sex körfu völlur og öllum opinn. Við innkomuna í garðinn, nálægt Safnahúsinu, hefur verið komið fyrir skilti sem sýnir skipulag frisbívallarins, m.a. lengd einstakra brauta. Frisbí, eða folf, er spilað líkt og heðbundið golf nema með frisbídiskum. Takmarkið er að kasta disknum í körfuna í sem fæstum skotum og sá vinnur sem þarf fæst skot.

Auk Fljótsdalshéraðs lagði Ungmennafélagið Þristurinn til fjármagn til kaupa á körfu, og Minningasjóður um Pétur Kjerúlf lagði verkefninu til veglegt fjárframlag til minningar um Pétur. Á skiltinu við frisbívöllinn standa þessi orð frá aðstandendum sjóðsins til minningar um Pétur: „Brosum, elskum og njótum dagsins í dag og verum þakklát fyrir það sem við eigum og erum. Verum besta útgáfan af okkur og njótum litlu hlutanna í lífinu, því þegar litið er til baka eru það þeir sem skipta máli. Grípum stundina og gerum hana að þeirri réttu í stað þess að bíða eftir henni.“