Friðartré gróðursett í Skjólgarðinum

Í gær 26. júní var hlaupið til friðar á Héraði en það er liður í alþjóðlegu kyndilboðhlaupi sem fer fram í öllum heimsálfum ár hvert. Hlaupið á Íslandi hófst í Reykjavík 20. júní og stendur í þrjár vikur.  Alþjóðlegur hópur hlaupara ber logandi Friðarkyndil milli byggða til að gefa öllum landsmönnum tækifæri á að taka þátt í viðburði sem hefur að leiðarljósi hugsjónir sáttar og samlyndis. Sérstök áhersla er lögð á þátttöku barna og ungmenna, sem er skipulögð í samstarfi við íþrótta- og ungmennahreyfingar.

Í gær tók íþróttafólk frá Hetti á móti hópnum við Húsasmiðjuna og hljóp með þeim í Skjólgarðinn á Egilsstöðum þar sem gróðursett var tré sem sérstalega er tileinkað friði.


Friðarhlaupið, eða Sri Chinmoy Oneness-Home Peace Run, eins og það nefnist á ensku er kennt við indverska friðarfrömuðinn Sri Chinmoy (1931- 2007). Ísland hefur tekið þátt í Friðarhlaupinu frá upphafi þess árið 1987 en í ár verður hlaupið í 20. sinn. Á þessum tímamótum er ætlunin að hafa hlaupið veglegra en nokkru sinni fyrr og heimsækja öll 75 sveitarfélög á Íslandi.


Verkefnið “leggjum rækt við frið” fer fram samhliða Friðarhlaupinu, en það gengur út á að sveitarfélög gróðursetji tré sem er tileinkað friði. Friðartrén minna okkur á að rétt eins og við þurfum að hlúa að og leggja rækt við trjáplöntuna svo hún megi vaxa og dafna, þurfum við að hlúa að og leggja rækt við friðinn í sjálfum okkur og samfélaginu, svo hann megi vaxa og dafna. Sjá nánar á http://www.peacerun.org/is/