Framsæknar hugmyndir um stafræna stjórnsýslu

Við undirbúning tillögu um sameiningu Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar var mikil áhersla lögð á stafræna stjórnsýslu og þjónustu, ásamt því að staðbundin afgreiðsla verði í öllum eldri sveitarfélögunum. Áhrif heimsfaraldursins hefur flýtt fyrir innleiðingu fjarfunda og hafa starfsmenn og sveitarstjórnarfólk tileinkað sér nýja tækni og vinnubrögð undanfarnar vikur. Fjarfundir spara mikinn tíma og fjármuni í starfsemi sveitarfélaganna. Þar með er ekki öll sagan sögð. Þó fundir séu stór þáttur í starfseminni, þá eru aðrir stafrænir þættir sem skipta miklu máli fyrir íbúana.

Starfshópur um stafræna stjórnsýslu hefur kynnt hugmyndir sínar fyrir Undirbúningsstjórn verkefnisins. Hugmyndirnar byggja á þeirri stefnumörkun sem kynnt var í aðdraganda sameiningarinnar, að Sveitarfélagið Austurland verði leiðandi í nýtingu rafrænn lausna í stjórnsýslu sveitarfélagsins og þjónustu við íbúa þess og að sameining skapi tækifæri til að auka sérhæfingu og styrkja stjórnsýslulega framkvæmd í sveitarfélaginu.

Innleiðing stafrænnar stjórnsýslu og þjónustu mun taka tíma og nauðsynlegt er að verja til þess fé á næstu árum. Lagt er til að ráðinn verði verkefnastjóri rafrænnar þróunar og þjónustu sem mun leiða þróun stafrænnar stjórnsýslu og þjónustu hjá sveitarfélaginu sem hafi m.a. það markmið að bæta þjónustu við íbúa sveitarfélagsins og auðvelda úrvinnslu upplýsinga. Verkefnastjórinn mun mynda teymi með sérfræðingum í upplýsingatækni og starfsfólki í stjórnsýslu og þjónustu við að finna og útfæra lausnir.

Starfshópurinn leggur til að upplýsingakerfi verði sameinuð, svo sem skjalakerfi, launa- og fjárhagskerfi og símkerfi. Byggt verður á góðri reynslu eldri sveitarfélaganna og má sem dæmi nefna að símkerfi Djúpavogshrepps verður heimfært á allt sveitarfélagið, en skjalakerfi Fljótsdalshéraðs.