Framkvæmdastjóri AST ráðinn

Þorkell Pálsson, viðskiptafræðingur MBA, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri sjálfseignastofnunar (AST) sem verður til við sameiningu stoðstofnana á Austurlandi. Tilgangur stofnunarinnar er að vinna að hagsmunamálum íbúa, sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja á Austurlandi og veita samræmda og þverfaglega þjónustu tengda atvinnulífi, menntun og menningu.

Í fréttatilkynningu segir að Þorkell hafi mikla reynslu af stjórnun fyrirtækja og stofnana. Hann hafi undanfarin 14 ár starfað sem stjórnunar- og rekstrarráðgjafi innanlands og utan.

Sameinuð sjálfseignarstofnun er stofnuð á grunni Þekkingarnets Austurlands, Þróunarfélags Austurlands, Markaðsstofu Austurlands og Menningarráðs Austurlands og á að annast annast daglegan rekstur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.

Stofnfundur AST, er áætlaður í byrjun maí 2012. Nánari upplýsingar á www.austur.is.