Framkvæmdarleyfi vegna hringvegar í Skriðdal

Á fundi bæjarstjórnar þann 17. desember síðastliðinn var samþykkt samhljóða tillaga skipulags – og bygginganefndar að gefa út framkvæmdarleyfi vegna hringvegar frá Litla – Sandfelli að Haugá í Skriðdal sem Vegagerðin sótti um í nóvember 2008.
Á fundinum var lagt fram erindi Skipulagsstofnunar dagsett 2. desember þar sem annars vegar var óskað eftir umsögn tillögu stofnunarinnar að matsáætlun vegna áframhaldandi framkvæmda vegna Axarvegar. Hins vegar var um að ræða framkvæmdarleyfi vegna vegar í Skriðdal sem Vegagerðin óskaði eftir. Bæjarstjórn fagnaði fyrirhugaðri framkvæmd sem er í samræmi við tillögu að aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs og gerði ekki athugasemd við matsáætlunina um leið og hún samþykkti tillöguna samhljóða. Báðar framkvæmdirnar eru mikilvægar fyrir sveitarfélagið og styrkir hún vilja bæjarstjórnar um að Skriðdalsvegur sé enn á áætlun.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri segir mjög mikilvægt að farið verði í þessar framkvæmdir á næsta ári.  Vegbætur á Þjóðvegi 1 í Skriðdal og á Öxi eru mjög mikilvægar í félagslegum, menningarlegum og öryggislegum skilningi.  Samstarf Fljótsdalshéraðs og Djúpavogshrepps er mikið og til að það geti eflst og dafnað er mikilvægt að þessi samgöngleið verði bætt verulega.  Í dag sinnir félagsþjónusta Fljótsdalshéraðs t.d. allri félagsþjónustu fyrir Djúpavogshrepp samkvæmt samningi og sveitarfélögin reka sameiginlegt brunasamlag í samstarfi við fjögur önnur sveitarfélag á svæðinu.  Sveitarfélögin hafa síðan átt í óformlegum viðræðum um sameiningu sveitarfélaganna og eru þessar samgöngubætur mjög mikilvægur þátttur í að þær viðræður haldi áfram.
Eiríkur fagnar skilningi ríkisvaldsins og Vegagerðarinnar á því að bæta þurfi samgöngur og auka öryggi vegfarenda.  Hann treystir því að þessar framkvæmdir lendi ekki í niðurskuði þeim sem framundan er í samgöngmálum.  Framkvæmdirnar í Skriðdal séu auk annars sem fram hefur komið mannaflafrekar og henta því vel á þessum samdráttartíma.