Fræðslufundur um heilsueflingu á föstudag

Opinn fræðslufundur um heilsueflingu og líkamsrækt verður haldinn í Hlymsdölum á Egilsstöðum föstudaginn 29. september, og hefst klukkan 15. Fyrirlesari verður Dr. Janus Guðlaugsson, íþrótta- og heilsufræðingur og lektor við Háskóla Íslands. Fundurinn er samstarfsverkefni Fljótsdalshéraðs – Heilsueflandi samfélags og Félags eldri borgara á Fljótsdalshéraði.

Mikill fengur að fá Janus austur á land. Hann hefur víða um land talað fyrir heilsueflingu eldra fólks og tekið þátt í verkefnum þess efnis. Hann fjallar m.a. um hvernig aukin heilsuefling getur m.a. aukið möguleika á því að starfa lengur á vinnumarkaði, búið lengur í sjálfstæðri búsetu og sinnt athöfnum daglegs lífs eins lengi og kostur er.

Á meðal umfjöllunarefnis á fundinum í Hlymsdölum verður „Fjölþætt heilsuefling í sveitarfélögum – leið að farsælum efri árum“ og „Hvað þarf til svo koma megi fjölþættri heilsueflingu fyrir hina eldri í framkvæmd í sveitarfélaginu“.

Heldri borgarar í sveitarfélaginu eru boðnir sérstaklega velkomnir á fundinn en hann er að sjálfsögðu opinn öllum áhugasömum.