Forvarnargildi íþrótta – og frístundastarfs er ótvírætt

Könnun á íþrótta og frístundaiðkun barna úr 4. – 10. bekkja grunnskóla á Fljótsdalshéraði var unnin fyrir íþrótta – og frístundanefnd og jafnréttisnefnd Fljótsdalshéraðs síðastliðið vor. Svörunin var mjög góð enda lögð fyrir alla skóla innan sveitarfélagsins.

Haldinn var kynningarfundur á niðurstöðunum í lok nóvember á síðasta ári á Hótel Héraði. Jón Ingi Sigurbjörnsson kennari í ME vann úr svörunum og kynnti samantektina ásamt fulltrúum nefndanna sem stóðu að könnuninni. Mæting á kynninguna var því miður afar slök og því þótti rétt að setja helstu niðurstöður inn á heimasíðuna sem hægt er að kynna sér myndrænt hér.

Könnunin var lögð fyrir nemendur í apríl og maí 2008 í samvinnu við kennara og skólastjóra. Heildar fjöldi þeirra sem svaraði voru 345 börn, nærri jöfn skipting stelpna og stráka. Niðurstöður sína að tæplega 79% barnana eru í skipulögðum íþróttaæfingum fyrir utan skóla leikfimi. Það er bent á að athyglisvert sé hversu ung börnin hefji skipulagða íþróttaiðkun, en 34% barna byrja fyrir 5 ára aldur og 55% hefja hana á aldrinum 6 – 10 ára. Þá kemur það fram að brottfallsaldur barna úr íþróttastarfi er almennt sá sami.

Í könnuninni voru tæplega 84% úr þéttbýlinu  af heildar þátttakendum og 16% úr dreifbýlinu.

Helstu niðurstöður eru meðal annars að munur er á þátttöku skólabarna í íþróttum og frístundastarfi eftir búsetu. Mikill meirihluti barna í Grunnskólanum á Egilsstöðum stunda skipulagðar íþróttaæfingar og tæplega helmingi fleiri stunda þær í Fellaskóla en þeir sem ekki stunda þær. Í dreifbýlinu er þátttakan svo mikið minni, en þar eru það aðeins ca. helmingur barnana sem stunda skipulagðar íþróttaæfingar. Ástæðan fyrir því að börnin stunda ekki slíka frístundaiðkun (óháð búsetu) er í langflestum tilfellum sú að þau hafa ekki áhuga eða að íþróttaaðstaða er of langt í burtu frá búsetu.

Megin þorri barnana leggja stund á fótbolta eða 128 börn. Næst flestir iðka fimleika eða 45 börn. Þá er jákvætt að sjá hversu mörg barnana nýta sér frítt sund eða 78% gera það.

Það kemur í ljós í niðurstöðum að ákveðinn hópur virðist stunda tölvuleiki umfram það sem heilbrigt er en 37% prósent þátttakanda leikur tölvuleiki 2 – 3 klst á dag, 14% í 3 – 5 klst á dag og 9% í meira en 5 klst á dag. Miðað við þessar niðurstöður þá er bent á að ástæða sé til að hafa áhyggjur af þessari þróun.

Í niðurstöðum Jóns Inga kemur fram að ákveðinn aldurshópur skeri sig úr hvað snertir íþrótta – og frístundaiðkun. Hann bendir jafnframt á að það ætti að leita skýringa á því af hverju það gerist.

Megin niðurstaða könnunarinnar er að forvarnargildi íþrótta – og frístundastarfs sé ótvírætt.