Forvarnardagur gegn einelti í Grunnskólanum Egilsstöðum og Eiðum

Síðastliðið haust ákvað Grunnskólinn Egilsstöðum og Eiðum að ganga í lið við þá skóla sem taka þátt í Olweusarverkefninu gegn einelti. Verkefnið hefur smám saman orðið sýnilegra í öllu skólastarfinu og í dag, síðasta vetrardag, var sérstakur forvarnardagur gegn einelti.

Þetta fól það í sér að nemendur og starfsfólk tóku virkan þátt í sérstökum forvarnardegi gegn einelti sem litaðist fyrst og fremst af vináttuverkefnum.

Sem dæmi má nefna að í Barnaskólanum á Eiðum var unnið undir einkunnarorðuum “Saman göngum hönd í hönd og litrík vefjum vinabönd” – sem sótt eru í skólasönginn. Nemendur og kennarar unnu í orðsins fyllstu merkingu með þau atriði sem þarna er sungið um, mótuðu sig í dúkkulísur sem voru síðan látnar ganga hönd í hönd á sameiginlegri mynd, auk þess sem 2. bekkur bjó til vináttubönd og færði 1. bekkingum.

3. - 5. bekkur hittust fyrir hádegi og unnu að sameiginlegum verkefnum sem eiga það sammerkt að minna á gleði, samkennd  og vináttu.

Kl. 11.30 hittust síðan allir bekkir á gervigrasvellinum og þar var vináttublöðrum sleppt og loks var myndaður vináttuhringur um skólann.

Fleiri verkefni sem tengjast vinnunni í Olweusar verkefninu munu væntanlega verða sýnileg á næstu misserum og vonandi taka sem flestir þátt í þessum verkefnum með nemendum og starfsfólki þannig að verkefnið nái að hafa áhrif sem víðast.

Á heimasíðu skólans má sjá myndir frá deginum.